Skip to main content

Sannleikurinn í æðra veldi

Soffía Auður Birgisdóttir skrifar:

Um Íslenzkan aðal eftir Þórberg Þórðarsson

Þórbergur Þórðarson segir frá því í samtalsbók hans og Matthíasar Johannessen Í kompaníi við allífið að skömmu fyrir fimmtugsafmæli Stefáns frá Hvítadal, haustið 1937, hafi Helgi Hjörvar beðið hann að flytja erindi í útvarpið um skáldið. Þórbergur brást góðfúslega við beiðninni og flutti tvö erindi sem fjölluðu um líf þeirra á Siglufirði og Akureyri árið 1912. Þórbergur segir: "Fólki líkaði erindin vel og ég fékk hrós fyrir. Svo hugsaði ég með mér: - Sennilega má nú gera bók um þetta. Og í henni varð svo elskan mín aðaluppistaðan, eins og þú veizt."


Hér er Þórbergur að sjálfsögðu að segja frá aðdraganda þess að hann skrifaði Íslenzkan aðal sem kom út árið 1938 og var fyrsta "bókmenntaverk" hans frá því að Bréf til Láru kom út árið 1924 . Þarna koma fram þeir tveir meginþræðir sem Þórbergur spinnur út frá í Íslenzkum aðli, þ.e.a.s. líf hans og skáldbræðranna (Stefáns frá Hvítadal og fleiri) á Siglufirði og Akureyri árið 1912 og "ástarsagan" - eða sagan af "elskunni" hans Þórbergs.

Er Íslenzkur aðall sjálfsævisaga?
Alla tíð hafa menn átt í erfiðleikum með að flokka þetta verk (eins og reyndar flest verk Þórbergs) og spurt að því hvort hér sé um að ræða sjálfsævisögu eða skáldsögu. Flestir hafa hallast að því að kalla verkið sjálfsævisögu með skáldlegu sniði. Smám saman hefur þó komið í ljós að verkið getur varla fallið í flokk hefðbundinna sjálfsævisagna, til þess er skáldskapurinn of ráðandi í verkinu. Sjálfur segir Þórbergur á einum stað:

Mínar bækur eru yfirleitt sannar frásagnir, hafnar dálítið upp í æðra veldi að sínu leyti eins og Gunnarshólmi Jónasar Hallgrímssonar, sem er sönn saga sögð á skáldlegu máli. En Íslendingar eru svo þunnir í skáldskaparmati, að þeir halda að ekkert sé skáldskapur nema maður "skapi" persónur, og sköpunin er venjulega ekki frumlegri en svo, að höfundarnir taka persónur, sem þeir hafa þekkt í lífinu eða haft sagnir af og hnoða upp úr þeim bókmanneskjur.

Til að athuga nánar hvernig Þórbergur "hefur sannleikann upp í æðra veldi" er ágætt að skoða "aðaluppistöðu" Íslenzks aðals, ástarsöguna. Hvert er sannleiksgildi þeirrar sögu? Það má skoða frá nokkrum sjónarhornum.
Haustið 1911 leigði ung stúlka að nafni Arndís Jónsdóttir sér herbergi í Bergshúsi, Skólavörðustíg 10, þar sem Þórbergur bjó á árunum 1909-1913. Arndís stundaði nám við Kennaraskólann í Reykjavík en dvaldist heima í Hrútafirði á sumrum. Kennaranáminu lauk hún vorið 1914 og flutti þá alfarin norður í land þar sem hún gerðist barnakennari og giftist nokkrum árum seinna. Ljóst er að "elskan" hans Þórbergs sem sagt er frá í Íslenzkum aðli og Ofvitanum er byggð á persónu þessarar stúlku og ýmsum raunverulegum atriðum er haldið til haga. "Elskan" er aldrei nafngreind í bókunum en hún leigir sér herbergi í Bergshúsi og kemur frá Bæ í Hrútafirði.
Þegar Íslenzkur aðall kom út var Arndís Jónsdóttir við fulla heilsu og henni var ljóst að hún var fyrirmynd "elskunnar" í bókinni en hún fullyrti hins vegar að þó að þau Þórbergur hefðu þekkst væri lýsingin á sambandi þeirra í bókinni hreinn uppspuni. Í dagbókum Þórbergs og ýmsum bréfum sem geymd eru á handritadeild Landsbókasafns er víða minnst á Arndísi og kemur þar fram að Þórbergur hefur verið hrifinn af henni en ekki er hægt að sjá að hrifning hans hafi verið endurgoldin eða að samband þeirra hafi verið nánara en gerist og gengur á milli kunningja sem búa í sama húsi. Helgi M. Sigurðsson sem ritstýrði úrvali úr dagbókunum og öðrum óbirtum handritum Þórbergs segir í formála að fyrra úrvalinu:

Á þessum árum steig Þórbergur fyrstu skrefin í kynnum sínum af kvenþjóðinni, en draumlyndi hans í þeim efnum var í litlu samræmi við raunveruleikann og olli honum ómældum sársauka. Ein stúlka, Arndís Jónsdóttir, átti hug hans í heil fimm ár, þó að samband þeirra yrði aldrei náið. Um það má að nokkru lesa í dagbókunum frá 1912 og 1914.

Þórbergur og "elskan"
Í Ljóra sálar minnar eru birt átta bréf til Þorleifs Gunnarssonar sem var einn af skáldbræðrunum sem sagt er frá í Íslenzkum aðli. Bréfin skrifar Þórbergur á tímabilinu júlí 1911 til maí 1912. Lengsta bréfið er skrifað 1. desember 1911 og teygir það sig yfir margar prentaðar síður. Það er jafnframt fyrsta bréfið sem Þórbergur skrifar Þorleifi eftir að Arndís flytur í Bergshús. Þórbergur skiptir bréfinu niður í sjö kafla og nefnist fimmti kafli (sem er stystur) "Kvenfólkið". Hann hljóðar svona:

Ég get verið fáorður um það. Kvennafar heyrist nú eigi nefnt af þessum gömlu kumpánum. Það er eins og þeir séu dauðir úr öllum æðum. Það er dálítið öðruvísi en í fyrra vetur. Ég fer aldrei út á kvöldin nema eg eigi brýnt erindi.
Tvær stúlkur komu hingað í húsið í haust og eru hér til vistar í vetur. Önnur þeirra er systir Önnu sem hér var í fyrra; hin er norðan úr Hrútafirði. Báðar eru þær laglegar vel, einkum hrútfirska kvinnan; hún er líka bráðskynsöm. Hún er systir Sigurgeirs, sem hér var í fyrra og er hér nú; þú kannast við hann.
Við höfum feykilega gaman að þeim. Sumir segja að stúlkan að sunnan sé ekki fráleit í hitt og þetta - - - .
Læt eg svo úttalað um það (63).

Ekki er hægt að ráða af þessu bréfi að Þórbergur sé beinlínis kolfallinn fyrir stúlkunni þótt honum finnst hún lagleg vel og bráðskynsöm. Ekki er tiltekið að hún sé til í "hitt og þetta - - - ", líkt og stallsystirin, enda hefði hún þá verið ófær sem fyrirmynd "elskunnar". Bréf þetta endar Þórbergur á því að kvarta um vanlíðan og þunglyndi: "Mér er lífið þungbært" segir hann og "það er eins og það létti á sál minni í svipinn ef eg get gert ofurlítið að gamni mínu þótt gamanið sé ómerkilegt" (63-64).
Næsta bréf er skrifað mánuði síðar, 2. janúar 1912, og þar minnist hann ekkert á Arndísi en segir hins vegar frá því að hann og Emil Thoroddsen vinur hans hafi komist: "á smávegis kvennafar; en ekki má eg segja þér hvernig því var farið; en kynnu sumarhallirnar suður við Öskjuhlíð að tala, þá gætu þær sagt sögu, sem skírlífar heiðurskonur myndu eigi kæra sig um að heyra í fjölmenni. Kl. 4 um nóttina kom eg heim" (68).
Næsta bréf er dagsett 27. janúar 1912 og þar segir m.a.: "Af mér er það frekast að segja að mér líður vel. - En eigi get eg þó neitað því, að tilkomulítið er lífið og oft er skuggalegt í sálu minni. En svo rofar til annað kastið; þá leik eg mér eins og lamb og flýg á kvenfólkið, svo allt ætlar um koll að keyra" (71). Síðar í bréfinu segir hann: "Kvennafar heyrist nú tæplega nefnt, nema þegar við Gunnar sitjum hér einir og hjölum um hitt og þetta sem á daga okkar hefur drifið í ástamálum o.s.frv. Það færð þú að heyra þegar við sjáumst næst" (74). Hann minnist ekki á Arndísi en segir Þorleifi frá þeirri fyrirætlan sinni að fara norður á Siglufjörð í síldarvinnu þá um sumarið því það sé mikið hægt að hafa upp úr því. Hann segist hins vegar vera ,"alveg hættur við vegavinnuna, því hún gefur svo lítinn hagnað" (76).
Næsta bréf er dagsett tæplega mánuði síðar, 23. febrúar 1912, og þá dregur loksins til tíðinda í meintum samdrætti þeirra Þórbergs og Arndísar. Þórbergur skrifar: "Nú er klukkan orðin 1 að nóttu. Ég hef setið hér hjá yndislegri stúlku síðan klukkan 9 í kvöld, en nú er hún nýgengin niður og þá byrja eg á bréfinu" (77). Hér er líklega óhætt að fullyrða að um Arndísi hafi verið að ræða því herbergi hennar var einmitt á hæðinni fyrir neðan herbergi Þórbergs. Fleira segir Þórbergur ekki um þennan fund þeirra í bréfinu heldur snýr sér að öðrum málum.
Eitt af því sem hann segir þar frá er kvæði sem birst hafði í Ísafold eftir mann sem kallaði sig H. Hamar. Kvæðið hafði vakið umtal, sérstaklega fyrir það sem Þórbergur nefnir "hógvært klám", "en það geta kvensniftirnar eigi þolað sóma síns vegna!!" segir hann í bréfinu (76). Þórbergi finnst kvæðið hins vegar lélegt og tilgerðarlegt og gerir hann mikið grín af manni sem "tók sér þann kross á herðar, að reyna að skýra kvæðið fyrir oss málfundarmönnum":

Það var regluleg unun að heyra til Helga þegar hann stritaðist við að skapa vit úr vitleysunni, og þó var gamanið mest er hann reyndi að gera holdlegu tilfinningarnar að háleitum ástartilfinningum. Menn réðu sér öðru hvoru ekki fyrir hlátri; og jafnan rek eg upp skellihlátur er eg minnist ræðu Helga og það nú er eg skrifa þér þessar línur (79).

Þetta eru athyglisverð orð í ljósi ástarsögunnar í Íslenzkum aðli því af þeim má ráða - sem reyndar víða annars staðar í skrifum hans - að Þórbergi var vel ljós andstæða háleitra ástartilfinninga og holdlegra tilfinninga eins og slíkt er sett fram í rómantískum skáldskap. Í Íslenzkum aðli er Þórbergur nefnilega öðrum þræði að gera grín að - eða að skopstæla - slíkar ástarsögur, eins og vikið verður að síðar.
Næsta bréf til Þorleifs er dagsett 11. apríl 1912. Í því langa bréfi er ekki minnst beint á Arndísi en undir blálok bréfsins segir: "Nú er klukkan orðin 121/2 að miðnætti. Kvenfólkið glepur fyrir mér. - - Nú eru hér skemmtilegar stúlkur. - - - Kveð eg þig svo með kærri kveðju, og bið þér allrar hamingju og heilla" (90). Síðasta bréfið til Þorleifs er dagsett 6. maí 1912 og er það skemmst frá því að segja að þar er ekki minnst á Arndísi né annað kvenfólk.
Umrædd bréf eru skrifuð á því tímabili sem Þórbergur á, ef trúa á Íslenskum aðli, að hafa verið að farast úr ást á Arndísi Jónsdóttur, "elskunni sinni". Hann hefur þá farið ansi leynt með þær tilfinningar í persónulegum sendibréfum. En hvað með dagbækurnar? Nú er dagbókarformið yfirleitt það form persónulegra skrifa þar sem ritarinn er hvað hreinskilnastur varðandi tilfinningar sínar og innri líðan.
Í kaflanum "Skærasti bjarmi vona minna" í Ljóra sálar minnar eru birt dagbókarbrot frá tímabilinu 15. maí til 6. júlí 1912 og þar kemur í ljós að "margt breytist í endurminningunni", eins og ritstjóri bókarinnar orðar það. Af dagbókunum má ráða að einhverjar tilfinningar hefur Þórbergur borið í brjósti til Arndísar en í Íslenzkum aðli hefur hann þær upp í æðra veldi í samræmi við þau lögmál sem frásögnin krefst. Með öðrum orðum þá ríkja lögmál skáldskaparins yfir lögmálum sannleikans í málinu. Í ljós kemur líka að sjálfur hápunktur frásagnarinnar - framhjágangan - átti sér aldrei stað. Um það má einnig lesa í bók Helga M. Sigurðssonar Frumleg hreinskilni. Helgi er á þeirri skoðun að "Þórbergur hafi ekki gert sér upp neinar tilfinningar í garð Arndísar í bókum sínum" þótt vissulega sé ekki allt kórrétt sem hann skrifar um samskipti þeirra. Helgi segir að Þórbergur hafi skipt "kvenfólki í tvo flokka, gyðjur og kynverur" og "Arndís [hafi] hafnað í þeim fyrrnefnda. Hrifning hans á Arndísi kom fram í þögulli tilbeiðslu. Hún var ósnertanleg helgimynd. Í návist hennar lét hann á engum tilfinningum bera" (28). Vera má að þetta sé rétt tilgáta hjá Helga - en það er þó aðeins tilgáta.
Það skiptir kannski ekki höfuðmáli hvaðan þær tilfinningar eru sprottnar sem Þórbergur lýsir í Íslenskum aðli eða hvort þær eru "sannar"; aðalatriðið er að þær lúta ákveðnu frásagnarmynstri sem er alþekkt í bókmenntum. Ég fæ ekki betur séð en Þórbergur sé í verkinu að skopstæla ákveðna tegund frásagnar á mjög meðvitaðan hátt: Hann skopstælir hina rómantísku ástarsögu - söguna um elskendurna sem ekki var skapað nema að skilja. Skopstælingin er einnig aðaleinkenni á "hinni" meginfrásögninni sem fram fer í verkinu, þ.e. frásögninni af skáldbræðrunum.
Það sem ég tel að hafi vakað fyrir Þórbergi öðrum þræði var að skrifa ástarsögu sem hefði drætti dæmigerðrar rómantískrar frásagnar um leið og hún hæðist að og skopstælir einmitt slíkar frásagnir. Hann hefur tilfinningar sínar til Arndísar upp í "æðra veldi" rómantíkur og goðsagnar, ýkir þær gegndarlaust þar til þær eru orðnar stórkostlega hlægilegar. Ef þetta er saga um "elskendur sem var ekki skapað nema að skilja" þá er hún það með öfugum formerkjum: Elskan hefur ekki hugmynd um tilfinningar elskhugans og kærir sig líklega kollótta um þær. Öll frásögnin af tilfinningum elskhugans er í útblásnum ýkjustíl frá upphafi til enda. Tilfinningalífið sveiflast frá hæstu hæðum til dýpstu lægða og aftur upp á örskotsstundu. Og allt er þetta óborganlega fyndið.

Er Íslenzkur aðall skáldverk?
Er Íslenzkur aðall þá skáldsaga? Ég svara því á þann veg að Íslenzkur aðall sé skáldævisaga. Ég held því fram að verkið sé dæmi um bókmenntategund sem fæðist fullþroskuð í verkum Þórbergs (eftir ákveðinn meðgöngutíma í íslenskri bókmenntasögu) og hefur æ síðan lifað og dafnað með öðrum íslenskum bókmenntum þótt staða hennar hafi verið jaðarstaða, staða hins "óhreina" forms eða blendings sem hefur kannski einmitt fyrir þær sakir lent utangarðs í bókmenntaumræðunni og fræðimennskunni. Ef til vill er ein skýringin sú að við höfum ekki átt nafn yfir þessa bókmenntategund fyrr en á allra síðustu árum þegar Guðbergur Bergsson af innsæi sínu nefndi þessa tegund skáldskapar sínu rétta nafni: "Skáldævisaga".
Í skáldævisögunni falla saman skáldsagan og ævisagan, þættir frá báðum þessum bókmenntategundum eru ofnir saman í eina nýstárlega heild. Ef við veltum fyrir okkur skilgreiningum á skáldsögunni annars vegar og ævisögunni hins vegar - og því hvað það sé sem helst aðgreinir þessar tvær bókmenntategundir - þá held ég að það sé óhætt að fullyrða að afstaðan til sannleikans hljóti að vera ráðandi þáttur. Einnig mætti nefna þætti eins og afstöðuna til minnisins, til tíma, rúms og frásagnarháttar, og síðast en ekki síst til sjálfsins, þ.e.a.s. hvernig sjálfið er endurskapað í texta.
Ég tel óhætt að fullyrða að þeir sem skrifa ævisögu sína telji sig flestir vera að bera sannleikanum vitni, að segja sögu sína á eins sannan og réttan máta og þeim er mögulega unnt. Lesendur ævisagna gera einnig kröfu um að rétt sé með farið og að krafa Ara fróða um að "hafa skuli það sem sannara reynist" sé höfð að leiðarljósi. Þeir sem skrifa skáldsögu vita á hinn bóginn að þeir geta leyft sér að "búa hvaðeina til" í textanum sem þeim sýnist og kröfur lesenda beinast að fagurfræði textans en ekki sannleika og staðreyndum. Höfundar skáldsagna geta því leyft sér að "hafa það sem skemmtilegra reynist" ef þeim sýnist svo.
Hitt er svo að sjálfsögðu annað mál hvort nokkurn tíma sé mögulegt að endurskapa í frásögn sannleikann eða veruleikann eins og hann var. Enginn gerði sér betur grein fyrir því en Þórbergur Þórðarson. Ef við minnumst orða hans, sem vitnað er í hér að framan, um að bækur hans séu "yfirleitt sannar frásagnir, hafnar dálítið upp í æðra veldi," sjáum við að Þórbergur vill greinilega að verk sín séu fremur skilgreind sem skáldskapur en eitthvað annað ("En Íslendingar eru svo þunnir…"). Hann setur sögur sínar í samhengi við önnur skáldverk (Gunnarshólma) og reynir að sýna fram á að lítill eða enginn eðlismunur sé á aðferð skáldsagnahöfunda - þeir "taka persónur, sem þeir hafa þekkt í lífinu eða haft sagnir af, og hnoða upp úr þeim bókmanneskjur" - og hans eigin aðferð. Hið "æðra veldi" sem Þórbergur vísar hér til er að sjálfsögðu veldi skáldskaparins með öllum sínum fagurfræðilegu kröfum.
Í skáldævisögunni ríkir fagurfræðin ofar sannleikanum. Hið skáldlega ríkir ofar staðreyndinni. Eða eins og Guðbergur orðaði það svo skemmtilega: Í stað þess að skapa sagnfræðilega rétt verk er sköpuð "hliðstæða við lífið" . Sá sem skrifar hefðbundna ævisögu eða sjálfsævisögu myndi vart hafa slíkt yfirlýst markmið að leiðarljósi, þ.e.a.s. að láta hið skáldlega ríkja yfir staðreyndinni, ef verkið á að standa undir nafni og væntingum lesanda.
Þórbergur Þórðarson hefur skrifað margt athyglisvert um ævisögur, sjálfsævisögur, skáldskap og sannleika. Það er til dæmis mjög athyglisvert að hann skilgreinir Ævisögu Árna Þórarinssonar sem sjálfsævisögu. Þórbergur lætur að því liggja að Árni sé sjálfur höfundur ævisögunnar og gerir lítið úr eigin hlutverki sem skrásetjara frásagnarinnar. Þegar verkið er greint kemur hins vegar glögglega í ljós handbragð Þórbergs í stíl, frásagnarmáta og uppbyggingu textans. Í minningarorðum sem Þórbergur skrifaði um séra Árna og birti í Þjóðviljanum 13. febrúar 1948 er að finna eftirfarandi klausu sem segja má að lýsi í hnotskurn fagurfræðilegu viðmiði Þórbergs Þórðarsonar. Þessi orð eru svar Þórbergs við þeirri fyndni sem varð landlæg og hljómar þannig: "Hún verður víst nokkuð nýstárleg þessi ævisaga, sem þeir eru að malla saman, hann séra Árni og hann Þórbergur, þar sem lygnasti maður landsins segir frá og sá trúgjarnasti færir í letur." Þórbergur skrifar:

Höfundi fyndninnar hefur sézt þarna yfir mikilvægan punkt: Í frásagnarsnilli er aðeins einn erfiðleiki. Það er að gera staðleysur að staðreyndum, sem áheyrandinn trúir. Þess vegna kemur snillingurinn fram fyrir hlustendur sína saklaus í framan eins og nýfæddur kálfur. Þetta er upphaf og endir hinnar sönnu listar.

Vera kann að þessi orð eigi við um frásagnarsnilli séra Árna - og víst er að þau eiga við um frásagnarsnilli Meistara Þórbergs og eru reyndar besta lýsingin á hans eigin aðferð sem ég hef lesið. Þórbergur ítrekar þetta síðar í minningargreininni þegar hann segir:

En öllum skáldmennum er sú list í brjóst lagin að kunna að mikla þau atriði í frásögn, sem eiga að vekja sérstaka eftirtekt. Og stundum virðist næmi þeirra svo mikið, að atvikin, sem mæta þeim í lífinu, verða mikilfenglegri og lífrænni fyrir þeirra skynjun en athygli annarra manna. Það er ein af náðargáfum snillingsins að trúa því, sem hann veit, að er lygi.


Er Íslenzkur aðall skopstæling á rómantískri ástarsögu?
Hér að ofan vitnaði ég í orð Þórbergs um að hann hefði hugsað með sér að sennilega mætti gera bók um ævintýri þeirra skáldbræðranna á Akureyri og Siglufirði árið 1912. En "í henni varð svo elskan mín aðaluppistaðan," segir hann síðan. Með öðrum orðum: bókin er ekki "um þetta", þ.e.a.s. líf skáldbræðranna, nema að hluta, aðaluppistaðan er önnur. Af því má draga þá ályktun að Þórbergur hafi gert sér grein fyrir því að lýsingin á lífi skáldbræðranna hafi ekki verið efni í heilsteypta sögu þótt hún sé vissulega efni í stórskemmtilega frásögn. Hann bregður því á það ráð að nota þessa frásögn sem bakgrunn fyrir aðra sögu sem honum liggur á hjarta að segja: Söguna af elskendunum sem aldrei náðu saman. En Þórbergi liggur hreint ekkert á hjarta að segja þá sögu í þeim rómantíska anda sem hún hefur verið sögð ótal sinnum áður um alla veröld.
Þótt lögð hafi verið áhersla á það í allri umfjöllun um verk Þórbergs hversu ólík þau séu innbyrðis að frásagnarhætti og efnistökum þá er engu að síður eitt sem þau eiga öll sameiginlegt og það er skopfærslan. Höfundurinn er eitt mesta meinhorn íslenskra bókmennta og það sem hann hafði mesta unun af að skopstæla voru verk "rómantískra jarmara og lýriskra vælukjóa" samtímans, eins og hann kemst að orði í skýringunum við eigið kvæði "Til hypothetista" í Eddu Þórbergs Þórðarsonar. Sjálft kvæðið birtist fyrst í ljóðabókinni Hálfum skósólum (1915), sem var fyrsta bókin sem Þórbergur sendi frá sér, og er ein alsherjar skopstæling á nýrómantískri kvæðahefð. Þórbergur lýsir þessu kvæðinu og tilurð þess þannig:
Orðið hypothetisti er myndað af höfundi kvæðisins og er einskonar samnefnari, sem allir rómantískir jarmarar og lýriskir vælukjóar gengu upp í. Það er hugsað þannig, að hypothetistinn sé persóna, sem lifi líkog í hypothesum í stað þess að mæta lífinu með opnum augum sannreyndanna. Kvæðið er knúð fram að viðbjóðslegri klígu og velgju við öllum þeirrar tíðar Huldum, huldumeyjum og Sólveigum, ljósenglum, gígjum og prinsessum, krýningum og konungaslotum, krystallshöllum og smalakkofum, kotbæjum, marmarasúlum, kvöldroðum, birkilautum, smálækjarsprænum o. s. frv. o. s. frv. Þessi velgjulegi, inpótenti tilgerðarjarmur í íslenzkri ljóðasmíð orsakaði á þessum árum króniskan nábít og viðbjóð í höfundinum.
Til hypothetista er víðáttumikil náttúrustemning, þar sem allt hið væmna og hátíðlega er gert afkáralegt og hlægilegt. Þar eru rottur látnar kvaka um ástir á greinum trjánna í stað þess að láta saklausa fugla syngja töfrandi ljúflingslög um ódauðleika hinnar einu sönnu ástar. Huldumeyjan húkir bakvið fossinn, þegar hinir láta hana slá hreimfagra gígju, sem seiðir og dregur elskhugann inní bergið. Og kvennadjásnið krafar yfirum hálsinn á höfundinum á sama tíma og önnur skáld eru vafin svanhvítum örmum óflekkaðra meyja. Þannig er allt kvæðið saman sett.

Geta má þess að í kvæðinu lýsir Þórbergur sólarlaginu sem "gulleitri aftanmóðu" (þ.e.a.s. niðurgangi) og er það ágætt dæmi um það gróteska niðurrif sem svo víða má finna í verkum hans. Það er sama hvar borið er niður í verkum Þórbergs - alls staðar ríkir skopstælingin á rómantíkinni ofar hverri kröfu. Það ætti að nægja að minna á fræga senu í Bréfi til Láru þar sem sögumaður sest niður á hækjur sér og skítur eftir að hafa rómað náttúrufegurðina sem mætir honum á gönguferðinni úr Ísafjarðardjúpi suður að Breiðafirði.
Haft er fyrir satt að þegar Þórbergur Þórðarson hleypti heimdraganum frá Hala í Suðursveit 18 ára gamall árið 1906 hafi hann kunnað utanbókar öll kvæði Jónasar Hallgrímssonar og Bjarna Thorarenssen og lungann af kveðskap Gríms Thomsen. Síðar heillaðist hann að kveðskap Einars Benediktssonar þótt hann hafi "losast á einni nóttu […] undan þeim póetiska svindlara" eins og hann kemst að orði í "Endurfæðingakróníku" sinni. Líklega hafa fáir verið eins ötulir lesendur bókmennta - innlendra sem erlendra - og Þórbergur á fyrstu áratugum tuttugustu aldarinnar. Það er því óhætt að slá því föstu að hann hafi verið afar vel að sér í rómantíkinni og nýrómantíkinni sem var við völd í kveðskapnum á þeim tíma þegar hann er að hefja sinn skáldferil. Það er því með öðrum orðum hinn mikil áhrifavaldur hans í æsku og á unglingsárum, rómantíkin, sem hann ræðst gegn með skopið og háðið að vopni þegar hann byrjar að skrifa.

Hinn íslenski Don Kíkóti?
Matthías Johannessen segir að Þórbergur hafi "gert elskuna sína að ástargyðju íslenzkra bókmennta". En er þessi "ástargyðja" ekki dálítið í ætt við Dúlsíneu hans Don Kíkóta? Getur verið að Þórbergur hafi ætlað sér að ganga af hinni rómantísku ástarsögu dauðri með Íslenzkum aðli, á líkan hátt og Cervantes gekk af riddarasögunni dauðri með Don Kíkóta?
Í kaflanum "Til Siglufjarðar" í Íslenzkum aðli má jafnvel sjá beina tilvísun til hins vitskerta Don Kíkóta sem hélt hann væri glæstur riddari sem ætti ást stórkostlegrar hefðarmeyjar, sem reyndar var bara hálfsubbuleg sveitapía sem vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið þegar riddarinn sjónumhryggi sýndi henni ástleitni. Í eftirfarandi klausu úr Íslenzkum aðli má sjá mann sem minnir ekki svo lítið á Don Kíkóta sem heldur ríðandi á baki Rosinante - sem hann taldi sér trú um að væri glæsimeri en var í raun gömul jálktrunta - á fund elskunnar sinnar, Dúlsineu. Riddarinn hér er sögumaður Íslenzks aðals sem hugsar til elskunnar sinnar í Hrútafirði:

Þegar sólin stóð beint yfir litla bænum, þar sem augun hennar litu ljós þessa heims í fysta sinn, reið ég úr hlaði á Þóroddsstöðum á skáldaðri jálktruntu, gamalli og latri, blóðlötustu skepnu, sem ég hef nokkurntíma komið á bak.

Ferðinni er heitið norður á Hvammstanga til að ná í skip til Siglufjarðar, en á leiðinni verður sögumanni hugsað til "elskunnar" og hann gerir sér í hugarlund hvernig hún myndi taka á móti honum ef hann sneri við tilbaka á Bæ í Hrútafirði:

En hvað það væri gaman! Og koma svo gangandi niður fjallið. Hún situr inni í yndislega litla herberginu sínu. Og það er ekki aflæst. Hún er að hekla lýsudúk, kannski á náttborð í svefnherbergi. En hvað hendur hennar eru hvítar! Fingur hennar kitlandi! Neglurnar á þumalfingri og heiðinmána tælandi!
Allt í einu er eins og hvíslað sé að henni: Líttu út um gluggann! Hún lítur út um gluggann, en sér engan. Hver var að hvísla: Líttu út um gluggann? Þá er eins og sagt sé við hana: Sjáðu manninn, sem er að koma þarna niður fjallið! Hún horfir upp í fjallið og sér manninn vera að koma. Hver getur nú þetta verið? Hann færist nær og nær. Nú er hann kominn niður undir túnið. Nei, hvort er sem mér sýnist! Hún hendir lýsudúknum og heklunálinni á kommóðuna og þýtur niður stigann og hrópar, án þess að taka minnstu vitund eftir, hvort nokkur heyri til hennar:
- Nei, haldið ekki hann Þórbergur sé að koma!
Svo kemur hún hlaupandi á móti mér upp túnið eins og langþráðum ástvini, sem dvalist hefur tíu löng og döpur ár á hvalveiðistöð í annarri heimsálfu. Og við mætumst ofan til á túninu. Og það er í hvarfi við bæinn. Og nú stendur enginn bak við augun og segir: Nú verður það að ríða af, þegar þið komið inn í herbergið. -
En hvað ég er fegin, að þú skulir nú vera kominn hingað aftur, elsku hjartans bezti vinur minn! Nú skiljum við aldrei framar, aldrei, aldrei.
Skiljum aldrei framar! Ég sté riddaralega upp á jálkinn og sneri baki að fjallinu. Svo byrjaði nuddið til fyrirheitna landsins.

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 0
Gestir þennan mánuð: ... 27
Gestir á þessu ári: ... 104549