Að loknu ári 2013
Árið 2013 er liðið og það sem einkennir það ár umfram allt annað er gífurleg aukning ferðamanna, allt árið um kring. Sú staðreynd hefur eflt mjög starfsemi Þórbergsseturs sem jafnframt þýðir þó að starfsemin einkennist í meira mæli af móttöku ferðamanna og þjónustu við þá en áður. Menningarviðburðir hafa jafnvel þurft að víkja til hliðar og markaðssetning meðal Íslendinga er minni en áður þar sem ekki reynist unnt að finna tíma til að taka á móti hópum í helgardvöl. Engu að síður var árið viðburðarríkt og Þórbergssetur markar sér sérstöðu með því að leggja áherslu á fræðandi ferðaþjónustu og persónulega þjónustu með menningarlegu ívafi auk þess sem borið er á borð fyrir gesti matur og veitingar frá Hala eða úr heimahéraði.