Skip to main content

Bókmenntahátíð í Þórbergssetri

konur4Bókmenntahátíð í Þórbergssetri var haldin 13. mars síðastliðinn. Fjölmargir gestir sóttu hátíðina og var góður rómur gerður að dagskránni sem að þessu sinni var eingöngu flutt af konum. Dagskráin hófst með fjörlegum og skemmtilegum söng Kvennakórs Hornafjarðar og fá þær hinar bestu þakkir fyrir.

Iðunn Steinsdóttir las um langafa sinn, en hún hefur skrifað skáldævisögulega sögu um líf hans. Hann var ómagi og síðar vinnumaður og varpar sagan ljósi á aðbúnað og líf þeirra er minna máttu sín í samfélaginu á seinni hluta 19. aldar. Bókin ber heitið Hrólfs saga; Fönnin hylur sporin.

Guðrún Pétursdóttir og Halldóra Thoroddsen rifjuðu upp dvöl sína á Hala fyrir nær hálfri öld, en þær réðu sig sem þræla í sumarvinnu á Hala sumarið 1968, þá 18 ára að aldri og víst er að margt hefur breyst síðan þá.

Halldóra Thoroddsen kynnti síðan bók sína Tvöfalt gler, sem hlaut fjöruverðlaunin fyrir fagurbókmenntir árið 2016. Halldóra sagði frá tilurð sögunnar og erindi hennar á hátíðinni ýtti óþyrmilega við hugsun okkar áheyrenda um samfélagsþróun og hvernig við mennirnir snúum hjóli atvinnulífsins hring eftir hring með það eina markmið ,,að smækka mannlífið niður í innantóma neysluhugmynd", en rjúfum um leið eðlilegt samhengi milli kynslóða, Halldóra gaf okkur góðfúslega leyfi til að birta erindið hér á vefnum og má finna það hér: Erindi Halldóru

Soffía Auður Birgisdóttir bókmenntafræðingur kynnti svo bókina sína um Þórberg, Ég skapa, þess vegna er ég.  Bók Soffíu er mikið þrekvirki  og að baki liggur greinilega geysimikil og vönduð rannsóknarvinna. ,,Það er óvanalegt nú til dags að lesa heila bók þar sem maður finnur að hver einasta blaðsíða og hver einasta setning er þaulhugsuð og sett fram af  yfirvegun og vandvirkni" eru ummæli sem m.a. hafa verið viðhöfð um bókina. Soffía Auður ver doktorsritgerð sína við Háskóla Íslands um verk Þórbergs Þórðarsonar þann 12 maí næstkomandi.

Hrossakjötsveisla og Bridgehátíð 2016

bridge 2Hin árlega Hrossakjötsveisla og Bridgehátíð verður haldin í Þórbergssetri 16. - 17 apríl  næstkomandi. Þegar hafa margir bókað sig og nýir bridgespilarar eru að bætast í hópinn. Byrjað verður að spila klukkan 14:00 á laugardeginum og  spilað fram eftir kvöldi. Síðan verður byrjað aftur að spila  kl. 10:00 á sunnudagsmorgni, en mótinu lýkur í síðasta lagi kl 15:00 þann dag. 

Hægt er að skrá þátttöku og gistingu í síma 4781073/ 8672900 eða á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Vegna fjölda fyrirspurna setjum við hér inn verðskrá fyrir mótið, nægur tími er að panta máltíðir þegar komið er á staðinn.

Mótsgjald er 3000 krónur. Gisting á Hala kostar 10.000 krónur á mann í tvær nætur, en 7000 krónur í eina nótt og morgunverður innifalinn. Einnig er hægt að panta gistingu í Skyrhúsinu sími 8998384 og á Gerði sími 4781905.

Boðið verður upp á Halahangikjöt og svið á föstudagskvöldi fyrir svanga ferðalanga, máltíðin kostar 2000 krónur. Einnig verður boðið upp á kjötsúpu í hádeginu á laugardag fyrir 1850 kr á mann.

Hrossakjötsveisla á laugardagskveldi og Halableikja í hádegismat á sunnudeginum ásamt kaffi kostar kr 7500 per mann.

Allir eru velkomnir á meðan húsrúm leyfir.

Bókmenntahátíð í Þórbergssetri

13022016 bmhHin árlega bókmenntahátíð verður í Þórbergssetri sunnudaginn 13. mars næstkomandi kl 14:00.  Dagskráin er að mótast, en ljóst er að þetta verður kvennahátíð þar sem  konur í rithöfunda- og fræðimannastétt verða gestir hátíðarinnar að þessu sinni, auk Kvennakórs Hornafjarðar  

Iðunn Steinsdóttir, sem í föðurlegginn er ættuð frá Kálfafelli í Suðursveit kemur og les úr nýútkominni bók sinni,  Hrólfs sögu. Þar rekur Iðunn sögu langafa síns í móðurætt sem háði harða lífsbaráttu sem sveitarómagi og  síðar vinnumaður í lok 19. aldar.

Halldóra K. Thoroddsen fékk á dögunum fjöruverðlaunin í flokki fagurbókmennta fyrir bókina Tvöfalt gler. Hún ætlar að heimsækja okkur Skaftfellinga þennan dag og kynna bókina, en bókin hefur vakið mikla athygli.

Lesa meira

Fræðaíbúð til leigu

Þórbergssetur hefur nú gert samning við Rithöfundasamband Íslands um að leigja aðstöðu þess að Sléttaleiti í Suðursveit til fræðimanna sem vilja dvelja frítt í Suðursveit og stunda rannsóknir eða skriftir. Um er að ræða tímabilið frá 1.september - 31. maí ár hvert. Hægt er að dvelja í vikutíma í senn eða lengur ef um semst. Æskilegt er að rannsóknir tengist verkum Þórbergs Þórðarsonar svo og áhugamálum, eða einhverju því sem tengist rannsóknum á sögu, náttúru og menningu í Austur Skaftafellssýslu. Ljóst er að þar er um fjölbreytt efnisval að ræða því áhugamál Þórbergs tengdust fjölmörgum fræðigreinum eins og þekkt er. Má þar nefna t.d. sögu, náttúrufræði, þjóðsögum og þjóðfræði, heimspeki og listum, læknisfræði, sálarfræði, stjörnufræði og veðurfræði, og svo má lengi telja. Óskað er eftir að viðkomandi gefi út verk sitt, kynni afrakstur vinnu sinnar á málþingum eða láti efni í té á Þórbergsvefinn.

Lesa meira

Ársskýrsla 2015

Starfsskýrsla ársins 2015 hefur nú verið birt á Þórbergsvefnum. Enn eitt metið hefur verið slegið í aðsókn gesta á staðinn,en alls voru skráðar 160.069 gestakomur á Þórbergssetur árið 2015.

20160108 ICECAVE 009Fjölbreytt starfsemi einkennir árið, en segja má að gönguferðir á jökli og íshellaferðir séu sú nýjung sem mesta athygli vekur og dregur æ fleiri ferðalanga að. Við stofnun Þórbergsseturs var það eitt af markmiðum þess að efla náttúruskoðun og söguferðir, að nýta  staðbundna þekkingu heimamanna á sögu og náttúru til að draga að fleiri ferðamenn, stuðla að fjölbreyttara atvinnulífi og styrkja búsetu á svæðinu. Það hefur sannarlega tekist, fyrirtækið Glacier Adventures gerir út jöklaferðir frá Þórbergssetri allt árið og er aðsókn gífurleg. Ungt fólk frá Hala er í forsvari fyrir fyrirtækið og nýtir tengingar við setrið, segir frá lífsbaráttu fólksins og fer og kannar svæði þar sem áður var aðeins farið til að leita kinda, en bændur hér gjörþekka. Þannig teygir sagan sig í allar áttir og sá þekkingargrunnur sem setrið markar nýtist til fjölbreyttrar fræðslu og starfsemi.

Lesa meira

Ég skapa þess vegna er ég

Ný bók um skáldskap Þórbergs Þórðarsonar eftir Soffíu Auði Birgisdóttur. 

Hér má finna umfjöllun RÚV um bókina.

 

Penninn - Eymundsson segir:

 

Þórbergur Þórðarson fjallaði mikið um sjálfan sig í sínum skrifum, en líka samferðafólk, hugmyndir samtímans, trúarbrögð og stjórnmál. Mörk skáldskapar og ævisögu eru ekki glögg en stíllinn og listfengið í frásögninni hafa tryggt vinsældir bóka hans. Soffía Auður Birgisdóttir hefur lengi rannsakað skrif Þórbergs. "Ég skapa - þess vegna er ég" er aðgengilegt rit um skrif þessa makalausa ritsnillings, Þórbergs Þórðarsonar.

Tónleikar á miðju ferðamannasumri

Bjartmar800Hinir árlegu tónleikar í Kálfafellsstaðarkirkju  haldnir í tilefni af Ólafsmessu að sumri  verða miðvikudagskvöldið 29.júlí næstkomandi og hefjast kl 20:00.
Bjartmar Guðlaugsson tónlistarmaður sækir Suðursveit heim, Á tónleikunum fer Bjartmar yfir feril sinn og flytur margar af sínum bestu perlum. Hann tengir þær saman með skemmtilegum sögum enda á Bjartmar ættir sínar að rekja til Suðursveitar þar sem hann segir að sagnahefðin sé rík. En fyrst og fremst verður gleðin og skemmtunin í fyrirrúmi. Dagskráin hefst með stuttri helgistund þar sem Gunnar Stígur Reynisson verður við altarið. Síðan verður rifjuð upp sagan um völvuna á Kálfafellsstað og tengingar kirkjunnar við Ólaf helga Noregskonung.Tónleikarnir eru svo í beinu framhaldi og verða um klukkustund. Að lokum er öllum boðið í gönguferð að völvuleiðinu undir Hellaklettum og rifjuð upp sagan af álögum völvunnar og áhrifum hennar á örlög og líf fólksins í Suðursveit í gegnum aldirnar.
Dagskráin er eftirfarandi:

20:00 Helgistund, séra Gunnar Stígur Reynisson
20:25 Upplestur, Valvan á Kálfafellsstað og Ólafur helgi; Þorbjörg Arnórsdóttir
20:35 Tónleikar; Bjartmar Guðlaugsson tónlistarmaður
21:40 Gönguferð að Völvuleiði undir Hellaklettum

Tilvalið fyrir heimamenn að koma og njóta kvöldstundar í Kálfafellsstaðarkirkju og taka gesti með

Aðgangur ókeypis
Allir velkomnir

Bridgehátíð og Hrossakjötsveisla í Þórbergssetri 11.- 12 apríl næstkomandi

BridgeÞann 1. apríl síðast liðinn hefði Torfi Steinþórsson á Hala orðið 100 ára ef honum hefði auðnast líf svo lengi. Torfi var mikill áhugamaður um bridge og stóð fyrir spilamennsku í Suðursveit áratugum saman. Suðursveitungar komu þá saman og spiluðu bridge, hin síðari ár alltaf á fimmtudögum. Yfirleitt var spilað á fjórum borðum og stundum fimm. Síðan var einu sinni á vetri alvöru sveitakeppni við Hafnarmenn, þar voru fremstir í flokki Árni Stefánsson og Ragnar Bjórnsson ásamt fleiri þekktum Hornfirðingum. Uppáhaldsmatur Torfa var saltað hrossakjöt og helst vel feitt. Á hverju ári stendur Þórbergssetur nú fyrir bridgehátíð og hrossakjötsveislu í Þórbergssetri, sem næst afmælisdegi Torfa, að þessu sinni 11. og 12. apríl næstkomandi. Þá er spilað nær linnulaust frá föstudagskvöldi til sunnudagssíðdegis og etið þess á milli hrossakjöt og silungur að hætti Halamanna. Mótið hefur verið vel sótt undanfarin ár víðs vegar að af landinu, en heldur hefur dregið úr þátttöku heimamanna seinni árin.
Hægt er að skrá þátttöku og gistingu í síma 4781073 / 8672900 eða á netfang This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.
Mótsgjald er 3000 krónur Gisting í tvær nætur morgunverður, hrossakjötsveisla og hádegisverður á sunnudegi kostar 16.000 kr
Gaman væri ef heimamenn og gamlir  spilafélagar Torfa kæmu í Þórbergssetur þessa helgi í tilefni 100 ára ártíðar Torfa
Allir velkomnir 

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 134
Gestir þennan mánuð: ... 5824
Gestir á þessu ári: ... 30825