Skip to main content

Annasamt sumar

endurb.1Þetta sumarið hefur verið annasamt hér að Hala, öllum ferðamönnum sem hingað streyma frá víðri veröld þarf að sinna auk hefðbundinna bústarfa enda er hér fjölmennur hópur af góðu starfsfólki og allt gengur án vandræða. Nú í vor bættust tveir starfsmenn í hópinn, þeir Jón Egill Bergþórsson kvikmyndagerðarmaður og Stefán Ágústsson íslenskufræðingur, sem hafa getað sinnt safninu og þeim verkefnum því tengdu sem brýnt var að yrði sinnt.

 

 

 

Lesa meira

Ofvitinn tekinn til sýninga

JonhjartarJón Hjartarson leikari í heimsókn

Jón Hjartarson sem lék Þórberg hinn eldri í leikgerð Ofvitans heimsótti okkur á dögunum. Árið 1979 var frumsýnd í Iðnó leikgerð Kjartans Ragnarssonar á Ofvitanum eftir Þórberg Þórðarson. Kjartan leikstýrði verkinu og aðalhlutverkin voru í höndum Emils Guðmundssonar, sem lék Þórberg ungan, og Jóns Hjartarsonar sem lék Þórberg eldri. Leikmynd og búninga annaðist Steinþór Sigurðsson, Ingvi Hjörleifsson og Daníel Williamsson sáu um lýsingu. Tónlistina í verkinu annaðist Atli Heimir Sveinsson.

Lesa meira

Upplestur Ragnheiðar Steindórsdóttur

 

ragnheiðurEins og fjallað hefur verið um hér á síðunni áður var haldin bókmenntahátið á Þórbergssetri þann 11. mars en 130 ár eru liðin frá fæðingu Þórbergs. Þann sama dag og steininn úr klettunum gerðist sjálfstæður einstaklingur og tillti sér á veginn fyrir neðan Sléttaleiti. Þessi atburður setti hátíðina í stærra samhengi og dulmagnaðra. Á hátíðinni las Ragnheiður Steindórsdóttir einmitt kafla úr Steinarnir tala þar sem Bergur litli veltir fyrir sér náttúru steinanna sem hann taldi vera mest lifandi af öllum „dauðum hlutum“. Hér má nú hlýða á þennan frábæra upplestur Upplestur Ragnheiðar.

 

Höfðingleg gjöf

gjöf1Heiðurshjónin Jakob Yngvason og Guðrún Kvaran færðu Þórbergssetri veglega gjöf í heimsókn sinni þann 17. júli síðastliðinn.

Gjöf þessi samanstendur af munum úr eigu móðurafa Jakobs Yngvasonar, skáldsins, málfræðingsins og kennarans Jakobs Jóhannessonar Smára. Auk þess færði Guðrún safninu grein sína Söfnun Þórbergs Þórðarsonar úr mæltu máli sem birtist í tímaritinu Íslenskt mál og almenn málfræði árið 2006.

Munirnir úr eigu Jakobs Jóhannessonar Smára eru annars vegar handrit að ljóðabók eftir Þórberg sem ber þann forvitnilega titil Heilir skósólar og hins vegar ljóð Þórbergs sem hann sendi vini sínum á póstkortum í tilefni jóla og áramóta.

Lesa meira

Ólafsmessutónleikar

tónleikarHinir árlegu Ólafsmessutónleikar verða  í Kálfafellsstaðarkirkju sunnudagskvöldið 29. júlí næstkomandi.  

Ólafur helgi Noregskonungur féll í bardaga á Stiklastöðum í Noregi 29. júlí 1030 og er  Ólafsmessa á sumri helguð þessum atburði. Samverustundin er helguð gömlum sögnum tengdum Ólafi en hann var verndardýrlingur kirkjunnar á Kálfafellsstað. Að lokinni helgistund verður rifjuð upp gömul þjóðsaga um völvuna á Kálfafellsstað sem var systir Ólafs helga og lesin saga um líkneski af honum sem gefið var til kirkjunnar upp úr aldamótunum 1700 til að  hnekkja álögum völvunnar á staðnum.  Líkneski þetta er varðveitt í Þjóðminjasafninu.

Lesin er frásaga Kristjáns Eldjárns af líkneskinu, að lestri loknum hefjast tónleikarnir og standa í um klukkustund. Á eftir er farið í heimsókn að Völvuleiðinu við Hellakletta og Fjölnir Torfason á Hala segir frá gömlum sögum er tengjast staðnum. Einnig sýnir hann áþreifanlega muni frá Kálfafellsstað sem varðveist hafa og sanna mátt völvunnar og áhrif hennar á lífið í Suðursveit allt fram á okkar daga.

 

Lesa meira

Ferðalag steinsins

kv038„Kannski er það sona með steininn í skriðunni. Það gæti alveg eins verið. Ég hef aldrei fundið ból eftir hann, og þó er ég áreiðanlega búinn að glápa eftir því hundrað sinnum. O þá veit hann ennþá meira en ég hélt, því steinar, sem standa út af fyrir sig, geta séð það, sem gerist allt í kringum þá. En steinar, sem eru bundnir í klettabelti, sjá aðeins fram fyrir sig. Hann getur samt verið miljón ára gamall, fyrst milljónir ára bandingi í klettabelti, so hundruð eða eða þúsundir ára sjálfstæð vera á kettarák eða bergbrún. Er ekki allt líf sona, fyrst eitthvað í einu lagi, svo eitt sér? So aftu í einu lagi?“ (Í Suðursveit, bls. 158).

 

 

 

Lesa meira

Halamótið 2018

halamot2018Metþátttaka var á bridgemóti og í hrossakjötsveislu á Hala helgina 14 - 15 apríl síðastliðinn. Alls spiluðu 58 bridgespilarar víðs vegar af á landinu linnulaust frá því laust eftir hádegi á laugardag til kl 14:30 á sunnudag. Um 80 manns gæddu sér á söltuðu hrossakjöti með öllu tilheyrandi og var það jafnframt fjölmennasta hrossakjötsveisla frá upphafi, en þetta var í 12 skipti sem þessi hátíð er haldin í Þórbergssetri. Ánægjulegt er  hve margir koma ár eftir ár að skemmta sér yfir spilunum og gæða sér á hrossakjetinu, sem var feitt og mjúkt undir tönn að þessu sinni.
 
Jón Halldór Guðmundsson og Einar Hólm Guðmundsson báru sigur úr bítum, en þeir voru að keppa í fyrsta skipti á Hala. Stefán Garðarsson og Guðlaugur Bessason voru í öðru sæti og Sigurður Ólafsson og Jón Sigtryggsson í þriðja sæti.
 
halamot20181
Sérstök bjartsýnisverðlaun eða ,, bjartasta vonin" hlutu þær Þorbjörg Halldórsdóttir og Marie-Louise Johannsson en þær byrjuðu að æfa sig að spila bridge á þessu ári og endurvöktu bridgespilamennsku að Hrollaugsstöðum í Suðursveit einu sinni í viku í vetur. Mótið er haldið í minningu  Torfa Steinþórssonar á Hala sem var mikill áhugamaður um bridge og  hélt uppi spilamennsku í Suðursveit í áraraðir.
 
Úrslit mótsins má finna hér:  Halamótið 2018

 

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 217
Gestir þennan mánuð: ... 6297
Gestir á þessu ári: ... 24321