Skip to main content

Mannvist á Mýrum

Mannvist 1Sýningin Mannvist á Mýrum var opnuð með viðhöfn í bókasafni Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar þann 29. nóvember síðastliðinn. Hér er má sjá afrakstur af skráningarverkefni Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar og Þórbergsseturs af fornum rústum og búsetuminjum í Sveitarfélaginu Hornafirði. Verkefnið núna er undir forystu Sigríðar Guðnýjar Björgvinsdóttur landfræðings og sýningin styrkt af Uppbyggingarsjóði Suðurlands.
Hér eru það hinar flatlendu Mýrar, næsta sveit austan Suðursveitar, sem teknar voru fyrir. Sveitinni hefur verið lýst sem vatnabyggð eða eins og segir í textalýsingu sýningarinnar: ,,Mýramenn bjuggu við óvenjulegar og oft krefjandi aðstæður langt fram eftir 20. öld. Framgangur jökla, jökulár sem flæmdust um og jökulhlaup spilltu nytjalöndum og urðu þess valdandi að margar fjölskyldur sem búsettar voru þar, hröktust á milli staða. Þessar erfiðu aðstæður urðu til þess að fjölmörg býli og hjáleigur fóru í eyði."
 
Þar segir einnig: ,,Markmiðið með skráningunni er að vernda og kynna landfræðilegar,mannvistar- og sögulegar upplýsingar um búsetu á svæðinu ásamt því að gera byggðasögu Austur-Skaftafellssýslu sýnilega. Minjar voru mældar upp með staðsetningartæki, ljósmyndaðar og skráðar. Skráning hófst í Suðursveit vorið 2020 og voru niðurstöður þeirra kynntar sumarið 2021. Í framhaldi hófst skráning á Mýrum með sama hætti og munu sveitirnar Lón, Nes og Öræfi fylgja í kjölfarið."
Sýningin er afar fróðleg. Ekki er um tæmandi upptalningu eyðibýla að ræða og fyrirhugað er að ljúka verkefninu um Mýrar á næsta ári. Einnig verður verkefnið sett inn í heild sinni á heimasíðuna www.busetuminjar.is eins fljótt og kostur er.
 
Sambúð manns og jökuls er sennilega hvergi í öllum heiminum sambærileg og í sveitunum sunnan Vatnajökuls. Skráning þeirrar sögu er mikilvæg og hér er þess gætt að vinna af fagmennsku með nákvæmum mælingum og myndatökum, - en einnig að þróa aðferðir til að gera söguna sýnilega með nútíma tölvutækni og miðlun. Sigríður Guðný Björgvinsdóttir á mikinn heiður skilið fyrir hennar hæfni, framlag og framsýni, Sigurður Hannesson fyrir að miðla af einstakri þekkingu sinni á sveitinni þar sem hann ólst upp, - svo og Tim Junge hönnuður fyrir frábæra hönnun og uppsetningu á spjöldunum.
 
Sýningin verður uppi í Bókasafni Menningarmiðstöðvar fram í janúar og fer síðan vonandi í eitthvað varanlegt húsnæði til sýnis og varðveislu.
Allir eru velkomnir
 
Mannvist 2 Mannvist 3 Mannvist 4

Oddný á Gerði og aðrar rismiklar og líflegar kerlingar 19. aldar

gerdi og oddnyarkofiHaustþing Þórbergsseturs verður haldið laugardaginn 4. nóvember og hefst kl 11:00 um morguninn. Eins og yfirskrift málþingsins ber með sér verður fjallað um konur á 19. öld, þar sem Oddný á Gerði (1821-1917) verður fremst í flokki. Þeir Þórbergur og Steinþór Þórðarsynir gerðu hana ódauðlega með skrifum sínum og aðdáun á gáfum hennar og dugnaði. Þórbergur skrifar einhver fallegustu eftirmæli sem nokkur kona getur fengið þegar hann segir eftir andlát hennar: ,,Með dauða Oddnýjar slokknaði bjartasta ljós Suðursveitar sem þar logaði í minni tíð."  

Málþingið hefst klukkan 11 að morgni laugardaginn fjórða nóvember næstkomandi. Til liðs við okkur kemur Erla Hulda Halldórsdóttir Oddnysagnfræðingur sem hvað mest hefur helgað starf sitt  á undanförnum árum kvennasögu og rannsóknum á kjörum kvenna. Hún kallar erindi sitt ,,Ein skrifandi kona í Suðursveit. Oddný á Gerði í sögulegu samhengi." Erindi hennar fjallar um Oddnýju á Gerði sem var sögð bráðgáfuð og víðlesin - eina skrifandi konan í Suðursveit um 1850. Steinþór og Þórbergur Þórðarsynir draga upp myndir af henni í bókum sínum sísegjandi sögur og kveðandi rímur, konunni sem kom með ,,menninguna" í Suðursveit. En hver var hún og hvað var svona sérstakt við hana? Í erindinu verður rætt um lífshlaup Oddnýjar í samhengi við sögu kvenna og samfélag nítjándu aldar þar sem stúlkur og konur bjuggu yfir gáfum og getu til þess að læra við misgóð tækifæri.

Tekið verður gott hádegishlé, en næsta erindi flytur Soffía Auður Birgisdóttir bókmenntafræðingur undir yfirskriftinni; ,,Þórbergur og gamlar konur." Eitt af því sem Þórbergur dáði framar öðru í fari fólks var frásagnarsnilli og þekking á kvæðum og sögum. Þessa hæfileika fann hann ekki síst hjá gömlum konum. Á æskuárum hans á Hala var það Oddný á Gerði sem bar af öðrum í þessum efnum en Þórbergur segir hana hafa kunnað,,kynstrin öll af merkilegum alþýðufróðleik, dulrænum sögnum, mannlýsingum, kviðlingum, ættvísi o.fl". Á fullorðinsárum í Reykjavík kynntist Þórbergur skáldkonunum Herdísi og Ólínu Andrésdætrum og fann hjá þeim sömu hæfileika og hefur hann lýst kynnum sínum af þeim á einkar skemmtilegan hátt. Í erindinu verður fjallað um samband Þórbergs við þessar gömlu konur og einnig vikið að kynnum hans við Láru Ólafsdóttur sem Bréf til Láru er stílað til. 

Þriðja og síðasta erindið flytur Þorbjörg Arnórsdóttir forstöðumaður Þórbergsseturs. Þar birtast sögur af nokkrum konum á Sunnansandabæjum sem bjuggu þar samtíða Oddnýju. Lýst verður kjörum þeirra og aðstæðum, barneignum og ótrúlegum örlagasögum sem tengjast miklum barnadauða, - en einnig óbilandi dugnaði, krafti og samstöðu þar sem þær létu ekki bugast, lifðu menn sína, stóðu fyrir búi og sýndu áhuga á að finna leiðir til betra lífs m.a. með bóklestri og fræðslu.  Einnig verða spilaðar gamlar upptökur, samtöl og frásagnir Steinþórs á Hala og Þórbergs um Oddnýju og frásagnir og söngur Steinunnar Guðmundsdóttur á Hala. 

Allir eru velkomnir í heimsókn í Þórbergssetur þennan dag. Dagskráin endar með kaffiveitingum og spjalli og lýkur  eigi síðar en kl. 16:00

Heimsókn í Suðursveit

Hópur eldri lækna og makFellsheimsóknar þeirra alls 42 manns komu og heimsóttu Þórbergssetur helgina 4. - 5. ágúst. Dvöldu þau  í tvo daga og fengu allan viðurgjörning, ferðuðust um svæðið og fengu notið dagskrár svo sem  upplestrar undir borðum, heimsókn á safnið og leiðsögn  um söguslóðir í nágrenni Þórbergsseturs.

Þar á meðal var farið að eyðibýlinu á Felli. Ákveðið var að snæða þar hádegisnestið og hlýða um leið á frásögn Fjölnis Torfasonar um Breiðamerkursand og búsetu á Felli. Fell var um aldamótin 1700 höfuðból með nokkrar hjáleigur eða alls 4 býli í ábúð við manntalið 1703. Þá var gott til bús á sandinum og Fell sýslumannssetur fyrir Austur Skaftafellssýslu.  Þá er það að jökullinn tekur að geysast fram með kólnandi tíðarfari litlu ísaldar og  og eyðingin verður síðan alger þegar bæjarhúsin á Felli tekur af  í stórflóði eða jökulhlaupi árið 1868.

Sambýlið við jöklana gerir sögu Austur- Skaftafellssýslu einstaka og áhrifamikið er að sjá með eigin augum eyðileggingarmátt Breiðamerkurjökuls á þessu svæði og með ólíkindum ótrúlegt að þetta gerist  á ekki lengra tímabili en raun ber vitni. eða aðeins um 150 árum. Við hlaupið flosnuðu upp frá Felli tvær barnmargar fjölskyldur  og voru örlög þeirra þar með ráðin. Afkomendur þeirra eru víða um land, og tenging við liðinn tíma forfeðranna að mestu rofin. Sjá má meira um eyðijörðina Fell á vefsíðunni www.busetuminjar.is 

Síðan var farið í fjöruferð á Reynivallafjöru, en þar hafði rekið stærðarhval á fjöruna skömmu áður. Ferðinni lauk svo með akstri inn í Þröng og  göngu að Breiðamerkurjökli. Þar má sjá einstakt jöklalandslag, klettabelti Fellsfjalls skafin af hrammi Breiðamerkurjökuls og hrjóstruga landmótun jökulsins á jörðu niðri. Veðurárdalur gapir nú opin til vesturs og er með ólíkindum hversu hratt jökullinn hopar til baka. 

Fell heimsókn 2Gaman er að blanda saman sögum úr umhverfinu við náttúruskoðun og segja má að tekist hafi vel til um við skipulagningu þessarar heimsóknar sem var í samvinnu Þórbergsseturs og Guðrúnar Bjarnadóttur læknis. sem var fararstjóri í hópnum. Guðrún hafði starfað sem afleysingalæknir á Höfn og kom þá í vitjun á Hala til Steinunnar Guðmundsdóttur eiginkonu Steinþórs á Hala. Heimsóknin var henni svo minnisstæð að æ síðan hefur hún haft löngun til að nálgast Hala og umhverfið allt um kring og var búin að lesa Suðursveitarbækur Þórbergs og ekki síður Nú, nú frásögur Steinþórs sér til mikillar ánægju. Þórbergssetur þakkar skemmtilega samveru með þessum hressa hópi um verslunarmannahelgina 2023.

Saga völvunnar á Kálfafellsstað kvikmynduð

Tónleikarnir  í Kálfafellsskirkju voru mjög áhrifamiklir þetta árið og stundin við Völvuleiðið ógleymanleg. Þórbergssetur þakkar Sigrúnu Völu Valgeirsdóttur fyrir að hafa lagt í það stórvirki að kvikmynda sögu völvunnar og listamönnunum fyrir komuna og fjölbreyttan tónlistarflutning. Ólafur Helgi Noregskonungur sem var sagður bróðir völvunnar var verndardýrlingur Kálfafellsstaðarkir.kju frá því i frumkristni og sagan um völvuna ævaforn.  Steinunn Jónsdóttir og Svanlaug Jóhannsdóttir frumfluttu söng völvunnar, textinn er  eftir Sigrúnu Völu en lagið er eftir Unu Stefánsdóttur. Síðan var haldið niður að völvuleiðinu og þar var söngur volvunnar kvikmyndaður við völvuleiðið. Það verður gaman að sjá kvikmyndina þegar hún verður frumsýnd. Myndir Sigrún Sigurgeirsdóttir  

357832598 10229596442991664 3538367555467772097 n

362300726 10229596441191619 4690796110516728237 n357567613 10229596440551603 4242489011697985972 n

 

 

 

 

 

 

 

 

Mynd 2 Ólafsmessa nMynd 1 olafsmessa n358096965 10229596440991614 817445593317824321 n

Ólafsmessa í Kálfafellsstaðarkirkju

 Myndlýsing ekki til staðar.Tónleikar og helgistund í Kálfafellsstaðarkirkju í tilefni Ólafsmessu verða fimmtudagskvöldið 27. júlí kl. 20:00. Svanlaug Jóhannsdóttir er gestur á tónleikunum, og kynnir sig sem söngkonu sem segir sögur. Hún ber listamannsheitið Svana.

Dagskráin hefst með helgistund, síðan taka við tónleikar Svönu og þar frumflytur Svana lag sem er óður til völvunnar á Kálfafellsstað. Ljóðið um völvuna er eftir Sigrúnu Valgeirssdóttur kvikmyndagerðarkonu, en lagið eftir Unu Stefánsdóttur tónskáld. Undirleikari er Reynir del Norte.

Að loknum tónleikunum verður farið niður að leiði völvunnar undir Hellaklettum og þar verður endurfluttur óðurinn til völvunnar. Steinunn Jónsdóttir söngkona , ein af Reykjavíkurdætrum flytur þar tónverkið ásamt Svönu. Saga völvunnar og tónleikarnir í Kálfafellsstaðarkirkju hafa því haft áhrif á listsköpun nútímalistamanna og verða kirkjugestir sem mæta í kirkjuna og við Völvuleiðið vitni að merkum listgjörningi tengdum þessari ævagömlu sögu.

Allir eru velkomnir að njóta stundarinnar í Kálfafellsstaðarkirkju og við Völvuleiðið að kvöldi dags 27. júlí næstkomandi. 

Bókakynning og ljóðalestur í Þórbergssetri á Hala

6.8cm Söngvar norðursinsBókaútgáfa Félags ljóðaunnenda á Austurlandi og önnur starfsemi félagsins verður kynnt í Þórbergssetri á Hala sunnudaginn 30. apríl 2023. Dagskráin hefst klukkan 13:30 og lýkur klukkan 15:30. Stjórn félagsins stendur að kynningunni í samstarfi við Þorbjörgu Arnórsdóttur, forstöðumann Þórbergsseturs.                     
Eftirtalið stjórnarfólk kemur fram á samkomunni og segir frá bókum félagsins og flytur ljóð úr þeim: Arnar Sigbjörnsson úr Fellabæ, nú búsettur í Kópavogi, Magnús Stefánsson Fáskrúðsfirði og Sólveig Björnsdóttir Laufási í Hjaltastaðaþinghá. Síðast en ekki síst kemur fram skáldkonan Kristín Laufey Jónsdóttir, Hlíð í Lóni og flytur eigin ljóð og annarra. Félag ljóðaunnenda á Austurlandi var stofnað árið 1996 og fljótlega urðu félagarnir yfir eitt hundrað að tölu. Hefur sá fjöldi félagsmanna haldist að mestu óbreyttur öll þessi ár. Félagið hefur verið hugsað sem sameiginlegur vettvangur höfunda og annarra ljóðaunnenda og það hefur staðið fyrir fjölmörgum samkomum víða um fjórðunginn þar sem ljóð hafa verið lesin og sungin. Þá hefur félaginu verið ætlað að örva og styðja félagsmenn til útgáfu eigin ljóða. Strax við stofnun félagsins komu fram hugmyndir um útgáfu ljóðasafns eftir austfirska höfunda, slíkt safn hafði komið út árið 1949, bókin Aldrei gleymist Austurland. Fyrsta bók hins nýja ljóðafélags kom svo út árið 1999 og hlaut heitið Raddir að austan – Ljóð Austfirðinga. Bókin hefur að geyma ljóð og lausavísur eftir 122 austfirska höfunda sem allir voru á lifi við útkomu bókarinnar.                 
Ekki stóð til í upphafi að félagið legði fyrir sig frekari bókaútgáfu en árið 2001 hóf það útgáfu á flokk ljóðabóka undir heitinu: Austfirsk ljóðskáld. Fyrsta bókin hlaut heitið Austan um land, höfundur hennar er Sigurður Óskar Pálsson frá Borgarfirði eystra. Svo hefur þetta æxlast þannig að síðan hefur ein bók komið út í flokknum á hverju ári. Þær eru því orðnar 22 að tölu. Sú nýjasta er úrval úr ljóðum fjögurra systkina frá Heiðarseli í Jökuldalsheiði, hún kom út á síðasta hausti. Bók númer 23 er í undirbúningi, ljóð Iðunnar Steinsdóttur frá Seyðisfirði.  Fljótlega kom að því að framboð varð á fleiri ljóðahandritum en komust að í flokknum og félagið fór að gefa út það sem við nefnum „aukabækur“. Svo skemmtilega vill til að þær eru líka orðnar 22 talsins svo að félagið hefur gefið út 44 bækur.                                                                                                          
Erfitt er að láta sölu ljóðabóka standa undir kostnaði við útgáfu þeirra og félagið hefði ekki gefið út allar þessar bækur án þeirra styrkja sem það hefur notið. Uppbyggingarsjóður Austurlands hefur styrkt útgáfuna mörg síðustu ár og einnig sveitarfélög á Austurlandi. Félagar greiða ekki eiginlegt félagsgjald en kaupa eitt eintak af bókum í flokknum Austfirsk ljóðskáld. Með þessu móti er félaginu kleift að halda bókaútgáfunni áfram. Magnús Stefánsson.

 

Hrossakjötshelgin á Hala

Langfjölmennasta hrossakjötsmótið á Hala var haldið í Þórbergssetri helgina 14 - 16 apríl. Alls spiluðu 88 bridgespilar alls staðar af á landinu. Segja má að spilað hafi verið linnulaust frá föstudagskvöldi til klukkan 2 á sunnudegi. Þess á milli voru teknar góðar matarpásur. Á hverju ári bragðast hrossakjötið alltaf best og bleikjuhlaðborðið í sunnudagshádegi vekur líka mikla ánægju. Segja má að mótið sé mjög að hætti Suðursveitunga frá þeim tíma er Torfi Steinþórsson á Hala hélt uppi spilamennsku og hrossakjötsáti í Suðursveit enda haldið til minningar um hann . Í hópnum eru nokkrir spilarar sem komið hafa nánast á hverju ári síðan 2007 en þá var fyrsta mótið og mættu þá 32 spilarar. Fjölmargir Skaftfellingar  voru fyrstu árin en fækkað hefur mjög í þeim hópi heimamanna sem sækja spilamennskuna. Mótið er á skrá hjá Bridgesambandi Íslands og gefin eru  silfurstig fyrir þátttöku á mótinu. Sigurvegarar árið 2023 voru Hermann Friðriksson og Stefán Jónsson með 60% skor. Í öðru sæti voru Vigfús Pálsson og Guðmundur Skúlason og í þriðja sæti Halldór Þorvaldsson og Magnús Sverrisson. Konum hefur fjölgað mjög í hópi spilara og var Ingibjörg Guðmundsdóttir með bestan árangurinn í 10. sæti ásamt makker sínum Guðmundi Birki Þorkelssyni. Mótsstjóri var Þórður Ingólfsson og stjórnaði mótinu nú sem fyrr af röggsemi. Nýjasta tölvutækni er notuð og birtast úrslit úr hverju spili jafnóðum á veraldarvefnum

Öll úrslit á mótinu má sjá á eftirfarandi tengli  https://urslit.bridge.is/.../f1e483df-1483-4a86-82d9..

 

Bridgemót

 

Minningarorð um Ingibjörgu Zophoníasardóttur húsfreyju og bónda á Hala í Suðursveit

 Ingibjörg amma fallegustIngibjörg Zophoníasardóttir á Hala í Suðursveit er látin á hundraðasta æviári. Langri lífsgöngu er lokið, æviskeið sem spannar heila öld. Það er líkast kraftaverki líf þeirra kvenna er lifðu við stórfelldar umbreytingar 20. aldarinnar og þurftu að takast á við lífsbaráttuna með trú á eigin getu framar öllu öðru.
Ingibjörg á Hala var ein slík kraftaverkakona sem af einstökum dugnaði, áræðni, útsjónarsemi og ósérhlífni tókst á við hvern dag af æðruleysi, - eiginleikar sem fylgdu henni allt fram í andlátið þrátt fyrir þverrandi krafta.
Ingibjörg á Hala var fædd á Hóli í Svarfaðardal 22. ágúst 1923 og ólst þar upp með foreldrum sínum. Hún var yngsta blómabarnið, falleg broshýr ung stúlka, stundaði sjálfsþurftarbúskapinn með foreldrum sínum og stundaði nám í Kvennaskólanum á Blöndósi. Þá var það sem nýútskrifaður kennari úr Suðursveit Torfi Steinþórsson mætti í Svarfaðardalinn til kennslustarfa, og var m.a. til heimilis á Hóli. Teningnum var kastað, hann hreif með sér ungu stúlkuna suður yfir heiðar og jökla og hún mætti sem ung húsmóðir á Hala með þriggja mánaða dóttur þeirra. árið 1945. Þar bjuggu þau alla tíð síðan. Torfi tók við skólastjórastöðu í Hrollaugsstöðum, síðar höfðu þau þar vetrardvöl en studdu við búskapinn á Hala að sumrinu. Börnin fæddust hvert af öðru og á tuttugu árum voru þau orðin tíu talsins. Einn dreng misstu þau árið 1950. Það voru þung örlög margra ungra mæðra á þeim árum í afskekktum sveitum. Ég fann alltaf fyrir sárum harmi hjá tengdamóður minni, en man að hún sagði eitt sinn. ,, ‘Eg fékk bara tvö börn í staðinn ” en tveimur árum síðar eignuðust þau hjónin tvíbura. Börnin fæddust upp á lofti á Hala, ljósmóðurin var sótt ,,upp yfir sand” og enga konu heyrði ég tengdamóður mina dýrka eins og Helgu ljósmóður á Brunnavöllum. Á hana lagði hún allt sitt traust, þar var hjálpin.
Allt til ársins 1964 voru Steinavötnin óbrúuð og að haustinu var heyvagninn settur fyrir dráttavélina, Torfi og Ingibjörg, búslóðin og börnin fluttu sig um set í Hrollaugsstaði og heim að Hala aftur að vori til ársins 1966. Þá tók Ingibjörg við búi á Hala með tengdaföður sínum Steinþóri Þórðarsyni á Hala og stundaði það af miklum dugnaði þangað til tveir synir hennar tóku við árið 1972.
Það var sama hvar Ingibjörg kom að. Alls staðar var sami dugnaðurinn, metnaðurinn og óbilandi kjarkur sem dreif hana áfram. Hún saumaði allan fatnað og fyrir jólin hvein í saumavélinni fram eftir nóttu, og prjónavélin var óspart notuð til að prjóna nærföt og peysur. Bökunarilmur var í eldhúsinu alla daga, heimilisverkin skipulögð eftir dögum . Rafmagn kom árið1971 og þá fyrst mættu nútímaþægindi í eldhúsið á Hala. Ég man vel þá stund þegar þvottavélin og frystikistan komu á Hala. Þá hættu lifrarskammtarnir og sviðin að koma úr frystihólfinu á Höfn í stórum strigapokum, og ekki þurfti að hafa það sama í matinn alla daga vikunnar þar á eftir. Uppþvottavélin var mikið þarfaþing því það voru 12 – 16 manns í heimilinu á Hala yfir sumartímann og máltíðir og kaffitímar reglulega yfir daginn, borðsett var bæði í eldhúsinu og eystri stofunni fyrsta sumarið mitt á Hala. Torfi veiddi silung í Lóninu, og Ingibjörg átti það gjarnan til að sækjast eftir nýjungum í eldamennsku. Hún tók m.a. upp á því að flaka silunginn og steikja í rúgmjöli og smjöri á pönnu. Gestagangur var mikill og allur viðurgjörningur var slíkur að eftir var munað. Það jafnaðist ekkert á við silunginn hennar Ingibjargar á Hala. Sveitungi hennar og mikil vinkona okkar á Hala sagði einu sinni. ,,Það var bara eins og ekkert væri ómögulegt í lífinu hennar Ingibjargar”. Hún lagði sig fram um að finna lausnir og una við það sem til staðar var hverju sinni með bjartsýni og opnum huga.
Ingibjörg og Torfi voru glaðlynd og félagslynd, Ingibjörg var í forsvari fyrir kvenfélagið í Suðursveit í 25 ár og Ungmennafélagið Vísir naut krafta þeirra hjóna lengst af. Eftir þeim var tekið á dansleikjum hvað þau dönsuðu listilega ræla og valsa og þau voru alla tíð forsvarsmenn eða virkir þátttakendur í félagslífi sveitarinnar. Alltaf var tími til glaðra stunda með gestum og gangandi jafnt við eldhúsborðið á Hala sem á samkomum sveitarinnar.
Ingibjörg var opin fyrir allri framþróun og studdi af ráðum og dáð uppbyggingu Þórbergsseturs. Hún stóð fyrir gerð minnisvarðans á Hala og er frumkvöðull að skógrækt í hlíðunum ofan við Halabæinn.
Ég þakka Ingibjörgu tengdamóður minni samfylgdina með fjölskyldu okkar á Hala í 50 ár. Ljúfar minningar um Ingibjörgu ömmu og Torfa afa birtast við hvert fótspor á Hala. Það var mjög í anda þessarar kraftaverkakonu að lifa í nær hundrað ár, fara í gönguferðir allt fram á síðustu mánuðina og munda heklunálina fram á síðasta dag, - þó að hún væri nánast alblind. Síðasta heimsóknin til hennar er eftirminnileg, hún spurði almennra frétta af ættingjunum og maður fann að hún var sátt og glöð eftir langa ævi og var tilbúin að hafa vistaskipti yfir í æðri veröld
Blessuð sé minning Ingibjargar á Hala 

 

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 0
Gestir þennan mánuð: ... 5550
Gestir á þessu ári: ... 23573