Samtal við Sigurð Þorsteinsson frá Reynivöllum

Samtal við Sigurð Þorsteinsson frá Reynivöllum, tekið miðvikud.28.janúar 2004.
Talað er um kynni hans af Þórbergi Þórðarsyni og Margréti konu hans.


Við sitjum og erum að undirbúa okkur fyrir viðtalið, ég set upptökutækið á borðið og
Sigurður rekur í það augun og spyr hvað þetta sé. Ég segi honum það og þá minnist Sigurður
þess að hann hafi komið að Hala í sumarfrí endur fyrir löngu en þá hafi Hallfreður Örn
Eiríksson verið þar staddur að safna þjóðfræðilegu efni og einmitt verið að taka upp á band.

Lesa meira

Frásögn af spólu, Vilhjálmur á Gerði, Völvuleiði

Völvuleiði
Fyrir utan Kálfafellsstað er þúfa nokkur á sléttum bakka sem að kölluð er
Völvuleiði. Sú sögn fylgir að þegar fljótlega eftir að kristni var lögtekin á Íslandi þá hafði
verið byggð kirkja á Kálfafelli eystra sem kallað var þá og ákveðið þar prestssetur. En
þar hefði á þeim tíma búið kona margkunnug og hefur hún líklega orðið að rýma þegar
ákveðið var að prestur byggi þarna á Kálfafelli eystra. Henni hefur sjálfsagt líkað það illa
að rýma og lagði það á að það skyldi enginn prestur ílengjast á Kálfafellsstað lengur en
20 ár. Þeir sem að yrðu lengur, það myndi/mundi sækja óhöpp og ófarnaður að þeim. En
ég skal nú geta þess að það virðist nú ekki hafa verið á síðari öldum því að allt frá 1600
hafa prestar á Kálfafellsstað verið mjög spakir og flestir setið þar lengur en 20 ár og
sumir mjög lengi. Það er, eins og ég gat um áðan, þá er svokallað Völvuleiði á bökkunum
fyrir utan Kálfafellsstað og fylgir því sú sögn að ef að staðarprestur lætur hressa upp á
leiðið, s.s. hlaða það upp, þá verði hann fyrir einhverju happi.

Lesa meira

Berjaferð

Það mun hafa verið einhvern tíma eftir 1940 að Þórbergur og Margrét voru í heimsókn á
Hala, ég hef sennilega verið 10 – 12 ára gamall. Margrét ákvað að ná sér nú í gott
búsílag með því að tína ber. Ingólfur Guðmundsson, þá vinnumaður á Reynivöllum átti
litla járntunnu, svona lítinn kút, gæti hafa tekið 40 – 50 lítra, sem hann gaf Margréti og
hún setur sér það markmið að fylla nú kútinn af berjum. Þau komu því á hverjum degi
Margrét og Þórbergur gangandi inn að Reynivöllum frá Hala og við bræðurnir Þorsteinn,
kallaður Daddi og ég, Sigurður vorum ráðnir sem verkamenn hjá þeim við berjatínsluna.
Fórum við gangandi inn í Hólmafjall sem er nokkurn spöl frá Reynivöllum, en fara þarf
vestur yfir Fellsána til að komast þangað. Ætla má að sé um eins og hálfs tíma gangur frá
Hala þangað til komið er í berjalandið í Hólmafjall. Það var mikið af berjum þetta haust
og dvöldum við þarna daglangt við að tína ber og þessi berjatínsla stóð sennilega í
vikutíma, því ekkert var gefið eftir með það að fylla átti tunnuna af berjum. Margrét var
verkstjórinn og stjórnaði berjatínslunni með harðri hendi og hélt okkur verkamönnunum
að verki.

Lesa meira

Gos í Öræfajökli

ÖræfajökullNú þegar Öræfajökull hefur hrist sig í tvö ár er ekki úr vegi að kynna sér sögu jökulsins, en þá einkum eldgosasöguna. Það vakti athygli mína þegar ég las Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar hversu staðhæfingasamir þeir eru um tvö atriði sem lúta að eldgosum í Öræfajökli. Þessi tvö atriði ef sönn reynast munu gjörbreyta þekkingu okkar og skilningi á eldstöðinn Öræfajökli og hugsanlega öðrum eldstöðvum honum tengdar.

Ferðabók Eggerts og Bjarna er skipt niður í 914 kafla, en í kafla 782 er fjallað um Öræfajökul, hér segir ,,Öræfajökull er eldjökull sem spúð hefur eldi og vatni. Hann skiptist í tvo hluta, sem báðir hafa gosið. Annar þeirra er Sandfellsjökull. Undir honum stendur prestsetrið og kirkjustaðurinn Sandfell. Austari hlutinn heitir Knappafellsjökull. Kallast hann svo af tveimur kringlóttum jökulþúfum austast á honum, sem líkjast helst kringlóttum hnöppum. Öræfajökull er einn af hæstu jöklum landsins og þeim öllum brattari, því að hann líkt og hangir fram yfir byggðina. Hann er hvítur og bjartur tilsýndar, en er annars eldfjall, sem oft hefir gosið með með miklum eld- og vatnagangi. Næst lýsa þeir tveimur síðustu gosum í jöklinum sem þeir telja þau kunnustu og jafnframt stærst. Þetta eru gosin 1362 og 1727.“

Lesa meira

Póstlisti

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 9
Gestir þennan mánuð: ... 925
Gestir á þessu ári: ... 46212

Þórbergssetur - Hala, Suðursveit - 781 Höfn í Hornafirði - Sími: 478-1078 - Netfang: This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Copyright © 2014. All Rights Reserved.

Fara efst