Heillandi Suðursveitarfjöll
Hjörleifur Guttormsson
(Birtist í Morgunblaðinu sumarið 2001)
Suðursveit er ævintýraland sem fleiri mættu gefa gaum að en hingað til. Óvíða finnst á svæði sem aka má gegnum á þjóðvegi á um hálftíma slík fjölbreytni í náttúru, hvort sem litið er á jarðfræði, landmótun eða lífríki. Ef sögu og amstri mannfólksins er bætt við svo langt heimildir ná verður heimsókn í Suðursveit ógleymanleg og þetta landshorn kallar þig aftur og aftur á vettvang. Að nógu er að hverfa fyrir ferðafólk sem hafa vill þak yfir höfuð, bæði í bændagistingu innansveitar og í grenndinni.
Í fyrra kom út sérstakur bæklingur um Suðursveit gefinn út af áhugamönnum heima fyrir með uppdrætti og lýsingum á gönguleiðum og mörgum myndum. Er það fyrsta kortið í útgáfuröð um gönguleiðir í Austur-Skaftafellssýslu og mikill fengur fyrir þá sem ferðast ætla um þennan landshluta.