Skip to main content

Úr sagnasjóði Steinþórs á Hala

Steinþór á HalaHallfreður Örn Eiríksson skráði:

Steinþór Þórðarson, fyrrum bóndi á Hala í Suðursveit, varð einn kunnasti sagnamaður þjóðarinnar, þegar hann flutti ævíminningar sínar í Ríkisútvarpið í hljóðritunum Stefáns Jónssonar. Voru þær birtar síðar undir titlinum Nú-nú, bókin sem aldrei var skrifuð. Hallfreður Örn Eiríksson, þjóðsagnafræðingur Stofnunar Árna Magnússonar, hljóðritaði og skráði sagnir, vísur, þulur, gátur, kvæði og rímnakveðskap eftir Steinþóri á árunum 1964- 1980. Úr því safni eru eftirfarandi sagnir og kveðskapur, en einnig má benda mönnum á snælduna Frá liðinni tíð, sem Námsgagnastofnun hefur gefið út.  Hallfreður hefur búið textana til prentunar og lagfært á stöku stað orðalag hljóðritananna. Hann hefur einnig aukið í fyrirsögnum.

Lesa meira

Sléttaleiti

SléttaleitiHaustið 2003 var reist sumarhús á Sléttaleiti í Suðursveit. Þar hafði ekki verið byggt til íbúðar síðan 1940-41 að foreldrar mínir, Auðbjörg Jónsdóttir og Sveinn Mikael Einarsson, síðustu ábúendur þar, réðust í að byggja steinsteypt hús með hjálp sveitunga og vina, eins og þá og áður tíðkaðist. Aðalsmiðir við húsið voru bræður Auðbjargar, Sigjón og Guðmundur, bændur í Borgarhöfn.
Í húsinu, á neðri hæð, var eldhús að sunnan en vetrarfjós að norðan.. Gengið úr eldhúsi upp stiga í nyrðra herbergi uppi og úr því í syðra herbergi sem var svefnherbergi foreldra minna og mitt, en í því nyrðra var svefnherbergi Bjarna bróður míns og um leið vinnuherbergi með prjónavél og saumavél móður okkar. Húsið var steypt úr sementi og fjörumöl, sem ekið var yfir lónið á hestakerru talsvert austan bæjar haustið fyrir byggingarsumar og geymd yfir veturinn í tyrftum haug, svo hún fyki ekki, síðan flutt í kerru vestur í brekkuna þar sem húsið var reist á gamla bæjarstæðinu sem hafði verið á sama stað frá því bærinn var fluttur frá Steinum, dálítið austar og neðar, að Sléttaleiti árið 1830 og þar var svo búið óslitið til 1951 að foreldrar mínir fluttu þaðan sem síðustu ábúendur Sléttaleitis. Máttarviðir í húsinu voru að mestu úr stóru tré sem rak á Sléttaleitisfjöru um þetta leyti, flutt á haldi yfir lónið og heim að bæ, þar sem foreldrar mínir söguðu það passlega niður í byggingu hússins með stórviðarsög lánaðri frá Sigjóni í Borgarhöfn. Steypan var hrærð í fótstiginni tunnu sem var einhverskonar félagseign. Árið eftir (1941) var byggður skúr við húsið. Í honum var inngangur í húsið, lítil forstofa með dyrum inn í eldhúsið, svolítil gestastofa og búr með dyrum inn í fjósið, en úr því voru útidyr til austurs. Yfir sumarið voru kýrnar hafðar í hesthúsi vestar í túninu.  Þegar foreldrar mínir hættu búskap á Sléttaleiti seldu þau jörðina, án húsa, nábúum sínum, bændum á Breiðabólsstað, Hala og Gerði og hafa þeir síðan haft hana undir, ræktað hana og nytjað til búskapar.

Lesa meira

Samtal við Sigurð Þorsteinsson frá Reynivöllum

Samtal við Sigurð Þorsteinsson frá Reynivöllum, tekið miðvikud.28.janúar 2004.
Talað er um kynni hans af Þórbergi Þórðarsyni og Margréti konu hans.


Við sitjum og erum að undirbúa okkur fyrir viðtalið, ég set upptökutækið á borðið og
Sigurður rekur í það augun og spyr hvað þetta sé. Ég segi honum það og þá minnist Sigurður
þess að hann hafi komið að Hala í sumarfrí endur fyrir löngu en þá hafi Hallfreður Örn
Eiríksson verið þar staddur að safna þjóðfræðilegu efni og einmitt verið að taka upp á band.

Lesa meira

Berjaferð

Það mun hafa verið einhvern tíma eftir 1940 að Þórbergur og Margrét voru í heimsókn á
Hala, ég hef sennilega verið 10 – 12 ára gamall. Margrét ákvað að ná sér nú í gott
búsílag með því að tína ber. Ingólfur Guðmundsson, þá vinnumaður á Reynivöllum átti
litla járntunnu, svona lítinn kút, gæti hafa tekið 40 – 50 lítra, sem hann gaf Margréti og
hún setur sér það markmið að fylla nú kútinn af berjum. Þau komu því á hverjum degi
Margrét og Þórbergur gangandi inn að Reynivöllum frá Hala og við bræðurnir Þorsteinn,
kallaður Daddi og ég, Sigurður vorum ráðnir sem verkamenn hjá þeim við berjatínsluna.
Fórum við gangandi inn í Hólmafjall sem er nokkurn spöl frá Reynivöllum, en fara þarf
vestur yfir Fellsána til að komast þangað. Ætla má að sé um eins og hálfs tíma gangur frá
Hala þangað til komið er í berjalandið í Hólmafjall. Það var mikið af berjum þetta haust
og dvöldum við þarna daglangt við að tína ber og þessi berjatínsla stóð sennilega í
vikutíma, því ekkert var gefið eftir með það að fylla átti tunnuna af berjum. Margrét var
verkstjórinn og stjórnaði berjatínslunni með harðri hendi og hélt okkur verkamönnunum
að verki.

Lesa meira

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 0
Gestir þennan mánuð: ... 27
Gestir á þessu ári: ... 104549