Lifandi mál, lifandi manna

Þobjörg Arnórsdóttir Veðurárdalur, Illagil, Hellrafjall, Hellrafjallsnöf, Miðfell í Veðurárdal, Miðfellsegg, Útigönguháls, Fauski. Öll þessi nöfn vekja upp minningar um löngu liðna tíð þegar setið var í eldhúsinu á Gamla Hala og skeggrætt fram og til baka um þessar fjarlægu og fáförnu slóðir. Þær voru amk. fjarlægar í hugum þeirra sem töldu að varla væri fært þangað nema fuglinum fljúgandi og fáeinum ,,ofursmölum" af Breiðabólsstaðarbæjum. Þegar haustaði að var farið að leggja á ráðin um Veðurárdalsgöngu og spennan óx með degi hverjum. Veðurárdalsgangan var nefnilega engin venjuleg ganga. Það þurfti að draga fram gömlu heimasmíðuðu jöklabroddana, treysta vel klettaböndin og velja góða veðurspá. Ræða um hverjir ættu að fara innfyrir og hverjir standa fyrir á Hellrafjalli, hvort sést hafi fé í Fellsklettunum, ræða um hvort sú tvílembda á Bjarnarák væri þar enn og svo framvegis.
Hver þekkir bæjarheitin Butra eða Hellar? Líklega kannast fáir þeirra sem yngri eru við þau en margir af eldri kynslóðum Austur-Skaftfellinga hafa heyrt þeirra getið. Í Sveitarfélaginu Hornafirði eru mikil og merk ummerki um horfna byggð frá liðnum öldum. Ummerkin eru ýmsar tegundir jarðlægra minja, m.a. tóftir bæjarhúsa og annarra mannvirkja tengdum þeim. Þau eru vitnisburður um búsetu og mannlíf á umræddu svæði. Talið er að fjöldi slíkra bæjarminja í sveitarfélaginu sé allt að 100 talsins. Mörg eru langt utan alfararleiðar og því er vitneskjan um tilurð og umfang þeirra ekki mörgum ljós.
Fyrr á árinu hófu Menningarmiðstöð Hornafjarðar og Þórbergssetur samstarf um skráningu hinna fornu býla, með að markmiði að vernda landfræðilega og sögulega þekkingu á búsetuminjum, og gera byggðasögu Austur-Skaftafellssýslu sýnilega. Á síðustu öldum bjuggu margir við aðstæður sem myndu þykja mjög óvenjulegar í samanburði við núverandi búsetuhætti. Fjölskyldur flæmdust á milli staða vegna ágangs jökla, jökulvatna, jökulhlaupa og annarra náttúruhamfara. Erfiðar aðstæður urðu til þess að fjölmörg býli og hjáleigur fóru í eyði.