Bókmenntir og söngur í Þórbergssetri




Hið árlega hrossakjötsmót verður haldið helgina 14. - 16 apríl næstkomandi. Óformlegt bjórmót verður haldið á föstudagskvöldinu en byrjað verður að spila tvímenning kl 13:00 á laugardegi. Hrossakjötsátið er í hléi um kvöldmatarleytið en haldið verður áfram spilamennsku fram eftir kvöldi. Á sunnudeginum hefst spilamennskan klukkan 10 og verður lokið eigi síðar en 15:00.
Fyrir nokkru síðan var lokið fornleifaskráningu á Breiðabólsstaðarbæjum jafnframt deiliskipulagsvinnu á svæðinu. Sigríður Guðný Björgvinsdóttir landfræðingur vann að skráningunni í samvinnu við heimamenn. Ljóst er að þarna var um mjög mikilvæga vinnu að ræða til að bjarga þekkingu frá eldri kynslóðum og miðla þeim síðan áfram til ókominna ára.
Sigríður gaf leyfi til að birta fornleifaskráninguna á Þórbergsvefnum, en mjög víða er einmitt vitnað í og stuðst við frásögur þeirra bræðra Þórbergs Þórðarsonar og Steinþórs Þórðarsonar enda má segja að svæðið sem unnið var á sé sögusvið Suðursveitabóka Þórbergs.
Því er ljóst að þarna er komin víðtæk þekking á húsaskipan og landnýtingu á Breiðabólsstaðartorfunni frá þeim tíma er þeir bræður voru að alast upp í lok 19. aldar, en jafnframt vitnað til eldri vitneskju þar sem það á við.
Málþing Þórbergssetur sem haldið var í lok október var afar áhugavert. Þar var fjallað um endlok byggðar á höfuðbýlinu Felli í Suðursveit sem stóð undir Fellsfjalli á austanverðum Breiðamerkursandi, landsvæði sem nú tilheyrir Vatnajökulsþjóðgarði. Jafnframt var rætt um framgang og síðar hop Breiðamerkurjökuls , landmótun og hvað það var sem varð ,,Felli að falli", eins og Snævarr Guðmundsson fjallaði um í erindi sínu. Mikill áhugi er nú hjá heimamönnum að gera einnig skil fornri menningar- og búsetusögu innan þjóðgarðsins og vonir standa til að fjármunir fáist í slíkt verkefni á næstu árum. Því miður var mikið um að vera þessa helgi og frekar fáir sóttu málþingið og ekki tókst heldur að fá neinn til að senda viðburðinn út í beinu streymi vegna anna. Umfjöllunin var þó afar gagnleg fyrir þá sem koma að rannsóknarstörfum og uppbyggingu innan þjóðgarðsins, þar sem þarna kom fram mikil þverfagleg þekking á svæðinu þar sem fræðimenn og heimamenn er gerst þekkja til fjölluðu um sögu, búsetu og staðhætti í samhengi við gríðarlegar breytingar á náttúrufari og landslagi allt frá tímum litlu ísaldar til okkar daga. Starfsmenn Vatnajökulsþjóðgarðs voru mættir og auk þess starfsfólk á vegum hinna ýmsu stofnana sem koma að rannsóknum á svæðinu auk áhugafólks um sögu og fornar minjar til að fræðast um staðinn. Dagskráin var löng og stóð til klukkan 5 síðdegis með góðu matar og kaffihléi.