Skip to main content

Viðburðir og starfsemi árið 2011

Þórbergssetur hefur nú lokið sjötta starfsári sínu. Eins og áður var starfsemin fjölbreytt, einstaka menningarviðburðir en jafnframt móttaka fjölmargra ferðahópa innlendra sem erlendra.

Helstu verkefni á árinu 2011 eru eftirfarandi:

 • Tilnefning til Eyrarrósarinnar, móttaka á Bessastöðum 13. febrúar. Þórbergssetur hlaut ekki Eyrarrósina, en tilnefningin var mikil viðurkenning á starfseminni. Stjórn Þórbergsseturs og hönnuðir fóru í bjóð til Helgu Jónu að lokinni athöfn á Bessastöðum og fögnuðu tilnefningunni.
 • Að kvöldi 11. mars var skáldakvöld í Þórbergssetri í tilefni af afmælisdegi Þórbergs 12. mars. Dagskrá var eftirfarandi:
  • Ljósa, Kristín Steinsdóttir rithöfundur les
  • Frásögn og ljóð, Vilborg Dagbjartsdóttir ljóðskáld
  • Kórsöngur, Kvennakór Hornafjarðar
  • Bréf til næturinnar, Kristín Jónsdóttir í Hlíð kynnir ljóðabók
  • Vængjaþytur vorsins, Ásdís Jóhannsdóttir, skaftfellskt ljóðskáld kynnt
 • Helgina 2.- 3. apríl var haldin árleg bridge- og hrossakjötsveisla í Þórbergssetri, sem um 40 manns sóttu hvaðanæva af landinu.
 • Forstöðumaður sótti alþjóðlegt söguþing í Orkneyjum í framhaldi af málþingi í Þórbergssetri í október 2010. Þingið var samstarfsverkefni norrænna þjóða og fjallað var um sameiginlega uppruna íbúa og samgöngur í Norður Evrópu á miðöldum
 • Opið var í Þórbergssetri yfir páskana og fjölmargir gestir lögðu leið sína í setrið að skoða sýningar og njóta þjónustu. Lesið var úr verkum skáldsins yfir málsverðum þegar það átti við. Einnig haldin stutt fræðsluerindi um náttúru, mannlíf og umhverfi fyrir erlenda ferðamenn. Þar er m.a. bent á harða lífsbaráttu í nálægð við óvægin náttúruöfl, þjóðtrú, örnefni og sögur tengdar þeim.
 • Leshópur dvaldi í Þórbergssetri í maí og fékk leiðsögn eða fræðslu um umhverfið og mannlífið, lesið var úr verkum Þórbergs og veitingar voru beint frá býlinu Hala, Jöklableikja, Halalamb og annar þjóðlegur heimagerður matur.
 • Hópur þýskra blaðamanna kom í heimsókn í Þórbergssetur 13. maí ásamt Halldóri Guðmundssyni og Guðrúnu Evu Mínervudóttur og voru með bókmenntadagskrá og kynningu á bókamessu í Frankfurt. Seinni hópurinn sem koma átti í lok maí komst ekki vegna öskufalls frá eldgosinu í Grímsvötnum
 • Hópur nýútskrifaðara leiðsögumanna dvaldi á Hala 15. maí og fékk fræðslu og leiðsögn um staðinn.
 • Breiðfirðingakórinn kom í heimsókn 15. maí og söng svo undir tók í fjöllunum, ógleymanleg stund.
 • Fyrirhugað málþing Á slóðum bókanna sem átti að vera helgina 28.- 29. maí féll niður vegna eldgossins í Grímsvötnum.
 • Bókin ,, Að skilja undraljós” kom út hjá Háskólaútgáfunni. Bókin er safn sextán greina um Þórberg Þórðarson, verk hans og hugðarefni. Greinarnar eiga flestar rætur í fyrirlestrum frá árinu 2008 þegar þess var minnst, bæði í Háskóla Íslands og á Þórbergssetri í Suðursveit, að 120 ár voru liðin frá fæðingu Þórbergs. Bergljót Kristjánsdóttir stjórnarmaður Þórbergsseturs var ritstjóri bókarinnar ásamt Hjalta Snæ Ægissyni.
 • Þann 11. júní var opnunarhátíð sumarsýningar Þórbergsseturs. Það var myndlistarsýningin Land, sýning Gígju Baldursdóttur myndlistarmanns. Um sýninguna segir Gígja m.a: ,,Verkin á sýningunni er öll sprottin upp af náttúrunni hér í Austur-Skaftafellsýslu. Þau hafa bæði kviknað út frá hinu agnarsmáa eins og litbrigðum í læk eða galdri i grassverði, en einnig frá hinu mikla og stórfenglega, eins og hillingum á svörtum sandi eða fjölbreyttum hvítum litaskala í jökli.
 • Þann sama dag var kynning á samstarsverkefni Listaháskóla Íslands og Þórbergsseturs. Verkefnið var samstarfsverkefni Listaháskólans og Bændasamtaka Íslands undir heitinu Stefnumót hönnuða og bænda. Um er að ræða rétti sem gerðir eru m.a, úr hráefni frá Hala, en hafa einnig tengingar við verk Þórbergs . Meðal annars eru þar sérstakir Þórbergssnúðar sem skapa einstaka tilfinningu líkt og að vera með ,,himnaríki í kviðnum" eins og Þórbergur segir og einnig frumlegar rúllutertur skornar niður með sérstöku tæki sem mælir nákvæmlega þykkt hverrar sneiðar.
 • Málþing í Þórbergssetri 17. júní, haldið með erlendum fræðimönnum og sæfarendum, sem siglt hafa um papaslóðir á N-Atlantshafi á írsku skútunni ,,Ár Seachrán", Ferðalangi. Framhald af alþjóðlegu málþingi í Þórbergssetri haustið 2010.

Dagskrá:

Sæfarendur og fræðimenn frá Írlandi koma í heimsókn .

13:00 Ferð skútunnar Ferðalangs í máli og myndum og fyrri rannsóknarferðir í   norðurhöfum Paddy Barry skipstjóri
13:50 Papar, trúarhugmyndir þeirra og viðkomustaðir þeirra í norðurhöfum Dr Jonathan Wooding prófessor í keltneskri kristni og sagnfræði
15:00 Ferð í Papbýli og skoðaðar fornar rústir
Írskur tónlistarmaður er með í för og skemmtir með írskri tónlist

 • Tónleikar með K.K í Kálfafellsstaðarkirkju, miðvikudagskvöldið 27. júlí kl 20:30 Samverustundin er tengd gömlum sögnum tengdum Ólafi helga Noregskonungi en hann var verndardýrlingur kirkjunnar á Kálfafellsstað.

Dagskrá:

Ávarp: Séra Halldór Reynisson starfandi sóknarprestur
Upplestur, Völvan á Kálfafellstað Þorbjörg Arnórsdóttir
Tónleikar ; K.K eins og honum er einum lagið
Kvöldganga, heimsókn að Völvuleiði ; Fjölnir Torfason segir frá>

 • Hópur Íslendinga dvaldi í Þórbergssetri helgina 7. – 9. október og naut leiðsagnar um setrið og umhverfið, ásamt veitinga beint frá býli.

 • Þórbergssetur og verk Þórbergs Þórðarsonar voru sérstaklega kynnt á Bókamessu í Frankfurt. Því miður hafði forstöðumaður ekki tök á að sækja bókamessuna. Helga Jóna Ásbjarnardóttir ( Lilla Hegga) mætti þar og fylgdist með kynningum og dagskrá og miðlaði til Þórbergsseturs

 • Nemar í ferðamálafræði Hólaskóla sátu eina námslotu í Þórbergssetri dagana 13. og 14. október, kynntu sér safnið og merktar gönguleiðir og skiluðu verkefnum um starfsemina

 • Málþing haustsins bar heitið Á slóðum bókanna. Fjallað var um bókmenntir og ferðaþjónustu en einnig fræðandi ferðaþjónustu í víðum skilningi. Tekinn var upp þráðurinn aftur frá vori en þá frestaðist málþingið vegna eldgosins í Grímsvötnum. Málþingið sóttu um 30 manns. Dagskrá var eftirfarandi:

Laugardaginn 22. október.

15:00 Málþingið sett

15:15 Ávarp:  Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri

15:30 Bókmenntir á aðventu: Skúli Björn Gunnarsson Gunnarsstofnun

16:00 Orðsins list: Saga og sögur Guðrún Helgadóttir Háskólanum á Hólum16:30 Umræður17:00 Misstu Íslendingar af norska olíusjóðnum vegna rangtúlkunar á Landnámabók ? Fjölnir Torfason17:30 Umræður um stöðu ferðaþjónustunnar á Íslandi

19:00 Kvöldverður

20:30 Kvöldstund í Þórbergssetri

 

Sunnudaginn 23. október

9:00 Morgunhressing og morgunganga meðal steinanna, sem tala.

10:15 Á slóðum Guðríðar og Hallgríms: Steinunn Jóhannesdóttir rithöfundur

10:45 Veruleiki skáldskaparins Soffía Auður Birgisdóttir bókmenntaf Háskólasetur Hornafjarðar

11:15 Fræðandi ferðalög, upplifun, skilningur eða skemmtun; Þorvarður Árnason Háskólasetur 

11:45 Að búa í heimi skáldævisögunnar; Þorbjörg Arnórsdóttir Þórbergssetur

12:10 Umræður

12:40 Hádegisverður og málþingslok

 • Áætlað er að um 6000 manns hafi sótt sýningar í Þórbergssetri árið 2011 og amk. 20.000 komið í húsið.
 • Forstöðumaður var með móttöku, kynningu og leiðsögn fyrir fjölmarga hópa og sérstakur starfsmaður var ráðinn í sumar til að sinna leiðsögn og afgreiðslu gesta á sýningar
 • Þau merku tímamót urðu á haustdögum að fyrsta bók Þórbergs Þórðarsons Íslenskur aðall var gefin út á þýsku undir heitinu Islands Adel. Bókin var þýdd af Kristof Magnusson, þýskíslenskum rithöfundi og fékk hún góðar viðtökur.
 • Gefnir voru út í harðspjaldablokk textarnir af Þórbergssýningunni á ensku, þýsku og frönsku. Fjölmargir franskir hópar voru í hádegismat í Þórbergssetri í sumar og nutu fræðslu og leiðsagnar um staðinn og því var góð viðbót að fá þýðingar á frönsku til að geta betur kynnt þeim Þórberg Þórðarson rithöfund og tengsl Suðursveitar við franska skútusjómenn áður fyrr., styrkt af Menningarráði Suðurlands
 • Guðbjörg Halldórsdóttir nemandi í ferðamálafræði í Hólaskóla lauk tveggja mánaða starfsnámi í Þórbergssetri og vann við að taka á móti fólki og við leiðsögn um sýningar Þórbergsseturs.
 • Alltaf er þó nokkuð um skólaheimsóknir og sérhópa sem koma í Þórbergssetur vor og haust. Haustið 2011 komu m.a. í heimsókn og fengu sérstaka móttöku og fræðslu, Grunnskóli Hornafjarðar, Framhaldsskóli Austur Skaftafellssýslu, Félag kúabænda á Austurlandi, Starfsmannafélag frá Selfossi, starfsmannafélag frá Kirkjubæjarklaustri o.fl.
 • Yfir jól og áramót dvöldu fjölmargir erlendir ferðamenn á Hala, alls um 190 gistinætur, fengu þeir kynningu á staðnum og umhverfi Þórbergsseturs og jafnframt var ókeypis inn á sýningar Þórbergsseturs sem smájólagjöf til gesta. M.a. voru gestir sem höfðu kynnt sér verk Þórbergs á Bókamessunni í Frankfurt fyrr um haustið.

 

Ljóst er að öflug starfsemi Þórbergsseturs er að skila samfélaginu í Austur Skaftafellssýslu nýrri vídd í ferða- og atvinnumálum sem tengist menningarferðaþjónustu og þá ekki síður fræðandi ferðaþjónustu. Fjölmargir erlendir og innlendir ferðamenn koma á staðinn og njóta dvalar og fræðslu og nærast á þjóðlegum mat úr héraði.

Þórbergssetur hefur tvær vefsíður, www.thorbergssetur.is sem er kynning á Þórbergssetri og www.thorbergur.is sem er fræðslusíða um Þórberg Þórðarson, Suðursveit og annað það er varðar starfsemi Þórbergsseturs.

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 0
Gestir þennan mánuð: ... 27
Gestir á þessu ári: ... 104549